Aðalfundur Veiðifélags Breiðdæla samþykkti harðorða ályktun á fundi sínum í síðustu viku, gegn fiskeldi í opnum sjókvíum. Segir í ályktuninni að engin sátt sé eða verði um þá úreltu framleiðsluaðferð að ala frjóan lax í opnum sjókvíum. Þá gagnrýnir aðalfundurinn einnig ný lög um fiskeldi. Þá er þess krafist að bæjaryfirvöld eystra taki virkan þátt í baráttunni að verja villta laxastofna svæðisins. Hér að neðan má lesa ályktunina í heild sinni.
„Við vörum við opnu sjókvíaeldi með frjóum fiski af norskum stofni sem ógnar tilvist villtra laxastofna. Engar mótvægisaðgerðir koma í veg fyrir óhjákvæmileg og varanleg tjón. Lax heldur áfram að sleppa, ekki síst eldisseiði sem ómögulegt er að sjóngreina þegar þau ganga í árnar fullvaxta og kynþroska fiskar. Þá verða slysasleppingar eins og reynslan staðfestir. Í lok árs 2017 gekk yfir Austfirði kuldastormur sem laskaði kvíar í Berufirði, nær 300 tonn af fiski drápust og kvíafestingar gáfu sig og líklegt að fjöldi seiða hafi sloppið í hafið. Aftur gekk sjávarkuldi nærri eldinu í Berufirði á liðnum vetri með talsverðum fiskdauða. Þá sást til laxatorfa innan við sjókvíarnar í Berufirði s.l. sumar.
Norsku eldisfyrirtækin á Austfjörðum tilkynna ekki opinberlega að fyrra bragði um slysasleppingar og alvarleg áföll í eldinu. Það hafa aðrir gert m.a. Veiðifélag Breiðdæla. Þess vegna verður að stórefla opinbert eftirlit með eldisiðjunni.
Við fögnum því, að áhættumat vegna fiskeldis hafi nú verið lögfest á forræði Hafrannsóknastofnunar, en vörum við að utanaðkomandi aðilar, pólitískir eða hagsmunatengdir, krukki í matið. Í áhættumatinu verða villtir laxastofnar að njóta forgangs.
Engin sátt er né verður um fiskeldi í opnum sjókvíum á Íslandi sem er úrelt framleiðsluaðferð. Í nágrannalöndum er unnið markvisst að því draga úr opnu eldi vegna hrikalegs skaða sem það hefur valdið í lífríkinu. Enga stefnumörkun er að finna í nýjum lögum um fiskeldi þar sem horfið yrði frá opnu eldi yfir í landeldi eða lokuð kerfi. Baráttan gegn opna eldinu heldur því áfram af fullum þunga.
Stjórn Veiðifélags Breiðdæla og Bæjarráð Fjarðabyggðar hittust á fundi 5. nóvember s.l. og ræddu fiskeldismál í sveitarfélaginu. Við krefjumst þess, að bæjaryfirvöld taki virkan þátt í að verja villta fiskistofna í ám sveitarfélagsins gegn fiskeldinu og standi gegn frekari útþenslu eldis í opnum kvíum, en setji fram metnaðarfulla áætlun um að allt eldi fari á land eða í lokuð kerfi. Annað er óásættanlegt í ljósi náttúruverndar og traustrar atvinnusköpunar. Þá er óboðlegt að gera Austfirði að rotþróm fyrir úrgang úr eldinu með óhjákvæmilegum skaða fyrir lífríkið og orðspor Fjarðabyggðar.
Villtur laxastofn Breiðdalsár er í stórhættu vegna laxeldis í nágrannafjörðum. Aðalfundur Veiðifélags Breiðdæla felur stjórn félagsins að halda baráttunni gegn fiskeldinu áfram af fullum þunga í samstarfi við Landssamband veiðifélaga, austfirsk veiðifélög, náttúruverndarsamtök og stjórnvöld og beita til þess tiltækum aðgerðum sem lög leyfa.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |