Næstu dagar gætu orðið mjög spennandi fyrir laxveiðimenn. Loksins, loksins er spáð alvöru rigningu á vestanverðu landinu. Öllum spám ber saman um blauta daga upp úr helgi.
Einar Sveinbjörnsson helsti heimildamaður Sporðakasta, varðandi veður, sagði í samtali við okkur að nú mætti treysta þessari spá um vætu. „Vindarnir eru að snúast í háloftunum. Í stað þess að við séum að fá kalt loft úr norðri erum við að fá raka vinda úr suðri. Það er ljóst að rigna mun á Suð Vesturlandi, Vesturlandi og eitthvað líka fyrir norðan. Sérstaklega verður vætusamt á sunnudag og mánudag.“
Ég segi nú bara fyrir hönd laxveiðimanna; Takk fyrir þetta.
„Það æpa allir á rigningu nema sóldýrkendur og þetta er nú ekki síður að koma sér vel fyrir bændur upp á sprettu og það vatnar einnig vætu inn á hálendið í úthaga.“
Öllum spám ber saman um þetta. Hvort sem litið er til miðils Einars Sveinbjörnssonar, blika.is eða Veðurstofu Íslands eða norska vefsins yr.no. Aðeins er á reiki hversu mikil úrkoman verður en öllum ber saman um að þetta er alvöru rigning.
Á sama tíma er stórstreymt þann 17. þessa mánaðar. Það gætu því verið að fara í hönd spennandi vika í laxveiðinni. Vonandi fer saman vatn og lax og það er ljóst að með rigningunni mun sá fiskur sem þegar er genginn hressast og súrefni mun aukast í vatninu. Brúnin mun lyftast á mörgum við rigninguna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |