„Fjandinn sjálfur, þetta er stór fiskur!“ hrópaði ég að Róberti Orra félaga mínum þegar hann hafði sett í svo vænan silung í Austurá á Arnarvatnsheiði að á færri sekúndum en það tekur þig að lesa þessa málsgrein var hann farinn með alla línuna út af hjólinu.
Svona hefst skemmtileg veiðisaga sem Baldur Guðmundsson leiðsögumaður stangaveiðimanna sendi Sporðaköstum. Gefum Baldri áfram orðið.
„Hertu bremsuna, hertu bremsuna,“ sagði ég við Robba en sá um leið að sexan var algjörlega í keng. „Hún er í botni,“ sagði hann af meiri yfirvegun en mér var töm á þessari stundu. Urriðinn var kominn í órafjarlægð, út í mitt vatn sem áin rennur í gegnum, þegar mér varð ljóst að við myndum aldrei sjá þennan fisk.
Þegar skammt var eftir af undirlínunni var ekkert annað í stöðunni en að stoppa fiskinn með handafli og vona það besta. Og það var þá sem hann sleit og synti á brott með góðan faðm af 15 punda taumi, gulan tökuvara og Krók nr. 12 í munnvikinu. Við áttum aldrei séns í þennan fisk. Þetta er lengsta samfellda roka sem ég hef séð urriða taka.
Það var þungt yfir heiðinni þennan dag en bjart yfir okkur. Við gengum frá Stóra-Arnarvatni um 15 kílómetra leið niður með ánni. Veiðin fór rólega af stað en eftir því sem neðar dró færðist meira líf í veiðina. Robbi var vopnaður tökuvara og – fyrst um sinn – Krók nr. 12 en annars öðrum púpum. Ég beitti Black Ghost, miskunnarlaust, enda öflugasta alhliða silungsveiðifluga sem ég þekki.
Ég veiddi litla staði í hröðu vatni með góðum árangri en Robbi sá um að veiða stærri fiskana í dýpri veiðistöðunum. Mér finnst fátt skemmtilegra en að leita uppi smákónga á litlum veiðistöðum. Fiska sem halda að þeir séu stórir og eigi ána. Á einum staðnum tókum við fimm fiska, fjóra urriða og eina bleikju, í beit. Þessi á er algjör perla en gangan er löng og mýrin á köflum þung undir fæti.
Við veiddum á þriðja tug fiska á okkar sjö tíma göngu niður Austurá. Hugur minn var sífellt við stórfiskinn sem varð á vegi okkar ofar í ánni. Hvað ætli hann hafi verið stór? Á síðasta veiðistað áður en við tókum stefnuna á bílinn setti ég í fisk. Ég hafði verið að lengja kastið þegar ég flækti línuna utan um hjólið - flugan sökk á meðan. Þegar ég náði sambandi við fluguna á nýjan leik varð fjandinn laus í hylnum. Ég hafði verið að draga línuna út af hjólinu og bremsan var því frekar laus. Ég var með öðrum orðum illa búinn undir að setja í stórfisk.
En það var það sem gerðist. Þegar fiskurinn fór af stað, svo boðaföllin gengu yfir hylinn, vissi ég að hröð handtök þyrftu nú að koma til. Ég hóf að herða bremsuna af fullum mætti, hring eftir hring. Þegar ég leit upp var fiskurinn kominn í um 30 metra fjarlægð, upp við stóran stein í ánni, sem er nokkuð djúp á þessum kafla. „Mér tókst að hægja á honum,“ sagði ég sigri hrósandi við sjálfan mig, fikraði mig nær og gaf fiskinum ekkert eftir. Þessi skyldi ekki sleppa.
Það var ekki fyrr en ég kom að steininum sem mér varð ljóst að ég hafði sennilega í um tvær mínútur togast á við 10 tonna stein í Austurá. Fiskurinn hafði einfaldlega vafið línunni um steininn og slitið sig svo frá honum, eins og stórir fiskar gera stundum. Það voru lúnir en ánægðir veiðimenn sem komu í bíl á Arnarvatnsheiði þetta kvöld. Stórfiskarnir tveir, og sennilega miklu fleiri, bíða ykkar hinna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |