Fiskifræðingar höfðu spáð stóru hnúðlaxaári í sumar og virðist sú spá vera að ganga eftir. Hnúðlaxar hafa veiðst víða um land. Staðfest er að sex hnúðlaxar hafa veiðst í Selá í Vopnafirði. Einn slíkur veiddist í Blöndu í vikunni. Staðfest er að hnúðlax veiddist í Víðidalsá og í það minnsta tveimur hefur verið landað í Syðri-Brú í Soginu, sem er efsta svæðið í ánni. Án efa hafa víðar veiðst hnúðlaxar og væri áhugavert að fá ábendingar frá veiðimönnum um slíkan afla.
Hnúðlax sem stundum er einnig kallaður bleiklax hefur líka veiðst í sumar í Norðurá, á Flóðatangasvæðinu og í Miklavatni í Fljótum.
Þessi aukning í hnúðlaxi kemur ekki á óvart og höfðu fiskifræðingar spáð þessu. Oddatöluár eru yfirleitt mun stærri þegar kemur að hnúðlaxi enda er lífsferill hans tvö ár. Í fyrra greindu Sporðaköst frá því að fiskifræðingar hefðu fundið í nokkrum ám hrygndar hnúðlaxahrygnur. Gera má því ráð fyrir því að þessi aukning haldi áfram. Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, sagði í samtali við Sporðaköst í fyrra: „Ég held að við getum verið nokkuð örugg á því að það hefur orðið hrygning hjá hnúðlaxi í þó nokkuð mörgum ám á Íslandi miðað við fjölda og dreifinguna á þeim fiskum sem við fréttum af.“ Þarna var Guðni að vísa til sumarsins 2017. Úthrygndar hrygnur fundust í Soginu og Mjólká og eins og Guðni benti á losa þær sig ekki við hrognin nema hængur sé í spilinu. Árið 2017 bárust ríflega sjötíu tilkynningar til Hafrannsóknastofnunar um hnúðlaxa í íslenskum ám og það úr öllum landshlutum.
Margir rugla hnúðlaxi, sérstaklega hrygnunum, saman við bleikju og eru fiskarnir ekki ósvipaðir þegar hnúðlaxinn er nýgenginn. Hann er hins vegar með mun meira af hvössum tönnum en bleikjan. Hreistrið er fíngert og hringlaga dökkar doppur á sporði. Hængurinn er svo auðþekktur á hnúðnum sem stækkar eftir því sem hann dvelur lengur í ánni. Svo er bara um að gera að taka mynd og birta.
Aukning í hnúðlaxi 2017 var mjög áberandi hér og einnig víða í Evrópu og var fiskurinn að finnast í ám allt frá Íslandi suður til Spánar. Ástæða þess að hnúðlaxinn, sem er Kyrrahafstegund, er að finnast í Atlantshafi er rakin til þess að Rússar hófu hafbeit með þennan fisk. Hnúðlax var fluttur í ár á Kólaskaga og hefur dreift sér þar og stofninn orðinn sjálfbær í þó nokkrum ám. Sama er að segja með nokkrar ár í Norður-Noregi.
Allar líkur eru taldar á að hnúðlaxinn geti orðið ágeng tegund í íslenskum ám. Fiskurinn heldur sig yfirleitt á neðstu svæðum í ám.
Mikilvægt er að tilkynna um þessa fiska til Hafrannsóknastofnunar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |