Um dauða stórurriða á Þingvöllum

Ljóst er að urriðinn var orðinn hálfgerður ræfill þegar hann …
Ljóst er að urriðinn var orðinn hálfgerður ræfill þegar hann drapst, þó stór sé. FB/Elísa H. Hafþórsdóttir

Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur hefur um langt árabil rannsakað urriðann á Þingvöllum og er helsti sérfræðingur landsins í þeim efnum.  Fyrir vikið hafa gárungarnir stundum kallað hann urriðapabbann. Jóhannes sá sig tilknúinn á fésbókarsíðu sinni fyrr í dag að upplýsa menn almennt um ævi og líf urriðans í vatninu í kjölfarið á að einn slíkur fannst dauður fyrir stuttu en „líkfundurinn“ vakti athygli í netheimum og komu ýmsar tilgátur fram um dauða hans og vildu sumir kenna um veiða og sleppa aðferðinni.

Nánar greinir Jóhannes frá:  „Fréttir af horuðum Þingvallaurriða sem fannst dauður í gær og vangaveltur manna um mögulega dánarorsök hans hvatti mig til að setja nokkrar línur á blað því tengt til gagns fyrir áhugamenn. Fréttin og meðfylgjandi mynd var að finna á Fésbókarsíðunni „Veiðidellan er frábær“ og þar voru skoðanir manna ýmist þær að fiskurinn hefði drepist af náttúrulegum orsökum fyrir elli sakir eða að hann hefði látið lífið vegna kynna sinna af veiða og sleppa fyrirkomulaginu.

Vegna þessa vil ég nota tækifærið og eyða hér ótta manna um að veiða og sleppa veiðihátturinn sé til vansa við veiðar á Þingvallaurriða. Um leið nota ég einnig tækifærið til að segja aðeins frá lífi 17 ára Þingvallaurriða sem ég hef fylgst með í 10 ár - enda endurspeglar líf hans seigluna í Þingvallaurriðanum og gagnsemina sem hafa má af því að sleppa urriðum sem stangveiddir eru í Þingvallavatni.

Eins og áður segir þá vil ég benda veiðimönnum sem hafa áhyggjur af heilsu urriða vegna veiða og sleppa fyrirkomulagsins að þær áhyggjur eru óþarfar ef eðlilega er að þeim veiðum og sleppingum staðið. Um það vitna merkingar mínar á Þingvallaurriðum sem að stórum hluta hafa verið gerðar á stangveiddum urriðum af öllum stærðum og aldri sem þar koma við sögu. Niðurstöður sem runnar eru frá árlegum rannsóknum mínum á Þingvallaurriðanum sem staðið hafa yfir í 20 ár. Þær rannsóknir hafa sýnt að stangveiddir urriðar sem sleppt hefur verið hafa lifað góðu lífi. Margir þeirra fiska hafa síðar á lífsleiðinni glatt aðra stangveiðimenn einu sinni eða oftar. En það sem meira máli skiptir, þeir hafa mætt á hrygningarstöðvarnar gjarnan árum saman, til að skila sínu til gagns fyrir framtíð stofnanna.

Hinn látni urriði úr fjöruborði Þingvallavatns tilheyrði hópi stærri Þingvallaurriða sem í ljósi þess hve horaður hann var sýnir að hann er hefðbundið dæmi um fisk sem drepist hefur úr elli. Ég hafði samband við starfsmenn Þjóðgarðsins á Þingvöllum og þau ætla að frysta hann fyrir mig svo ég geti skoðað hann. Það gerir mögulegt að athuga hvort hann beri fiskmerki frá mér innvortis, taka hreistur til aldursgreiningar og fleira. Hér er við hæfi að geta þess að vegna þess hve stofnar Þingvallaurriða eru stórir hin síðari ár þá er meira af gamalurriðum á ferðinni og því meiri líkur til að rekast á sjálfdauða urriða úr þeirra röðum í Þingvallavatni. Í tengslum við vangaveltur um aldur og fyrri störf urriða sem hrökkva upp af af sjálfsdáðum þá getur lengd æviskeiðs þeirra verið nokkuð misjafnt, algengt er að þeir nái 10 ára aldri. En 17 ára urriðar eru þeir elstu sem vitað er um í Þingvallavatni síðustu áratugina. Algengt er að urriðinn nái að hrygna ítrekað árum saman.

Gamall kunningi minn úr röðum Þingvallaurriða er um þessar mundir 17 ára ellibelgur. Þeim hæng hef ég fylgst með í 10 ár frá því að fundum okkar bar fyrst saman í Öxará 2010, en þá var hængurinn rúmir 89 cm að lengd og tæp 9 kg. Þá merkti ég hann innvortis með svokölluðu rafkenni og einnig útvortis með mælimerki sem gaf upplýsingar næsta árið þ.m.t. um dýpið sem hann fór um í Þingvallavatni og hitann sem hann upplifði á þeim ferðum sínum. Næsti fundur okkar var 2011 og fundarstaðurinn sá sami, Öxará. Þá losaði ég hann við mælimerkið og síðan hittumst við árlega meira og minna þar í ánni næstu árin á hrygningartíðinni. Árið 2017 náði ég síðast að heilsa upp á hænginn góða í eigin persónu. Þá var hængurinn orðinn 97 cm langur en þyngdarrýrnun ellinnar var farin að gera vart við sig. Í það skiptið merkti ég fiskinn með hljóðsendimerki sem gerir mér mögulegt að að fylgjast með ferðum hans út frá skráningarstöðvum sem ég rek víðsvegar um Þingvallavatni.

Við síðustu aftöppun gagna af nokkrum þeirra stöðva fyrr á árinu mátti sjá að sá gamli var enn á sundi sínu á milli stöðva nú 17 ára gamall (á sínu 18. aldursári). Kannski maður eigi eftir að sjá hann á riðstöðvunum í Öxará einu sinni enn, eða kannski finnst honum þetta komið gott. Kannski ekki ofsögum sagt því miðað við það sem ég man með vissu þá hefur hann tekið þátt í hrygningunni í að minnsta kosti 7 ár.“

Mynd af dauða urriðanum frá því í gær.
Mynd af dauða urriðanum frá því í gær. FB/Elísa H. Hafþórsdóttir
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert