Að sögn Atla Gunnarssonar sem heldur utan um netaveiðar á laxi fyrir landi Selfoss við Ölfusá, hefur veiðin í netin í sumar verið frekar slök samanborið við fyrri ár.
Atli annast netalagnir fyrir Selfossbændur sem hafa heimild til að hafa tvær lagnir á eystri bakkanum, eina beint neðan við Ölfusárbrúna og aðra á eyrinni skammt fyrir neðan Selfosskirkju, á móts við veiðisvæði Stangveiðifélags Selfoss.
Kvaðst Atli ekki hafa getað sinnt lögninni neðan við brúna sem skyldi í sumar vegna mannskapsleysis, en tvo fullfríska karlmenn þyrfti til að sinna henni og vitja um hana á þriggja tíma fresti. Lögnin á eyrinni fyrir neðan kirkjuna væri hins vegar einfaldari og einn maður gæti hæglega sinnt henni og hún hefði því verið fullnýtt í sumar.
Lögnin við brúna væri mun betri og nefndi Atli sem dæmi að 10. júlí hefðu komið 14 laxar allan daginn í lögninni á eyrinni fyrir neðan kirkjuna, á meðan 13 laxar komu í lögninni við brúna eftir einungis þrjá klukkutíma.
Ljóst væri að samdrátturinn í veiðinni væri talsverður samanborðið við fyrri ár, en hann kvaðst ekki hafa tölur um það á hraðbergi. Veiðin hefði samt farið þokkalega af stað í byrjun en svo hefði hún dvínað og áberandi væri að minna væri af smálaxi en í meðalári.
Fram kom hjá Atla að hver einasti lax væri vigtaður sem kæmi í netin og væri meðalþyngdin í sumar aðeins meiri en í fyrra, 2,58 kíló samanborðið við 2,53 kíló allt sumrið 2018.
Atli sagðist helst hallast að kenningu Bjarna Júlíussonar, fyrrverandi formanns Stangveiðifélags Reykjavíkur, að orsök hinnar slöku laxagengdar í sumar mætti rekja til þess hve lítil og léleg hrygning hafi orðið hjá árganginum sem gekk 2014 í árnar.
Þótt viðvarandi þurrkar eins og í sumar hefðu í sjálfu sér lítil áhrif á laxagengd í Ölfusá hefði hann aldrei orðið eins mikið var við særða laxa í netunum eftir veiðibjöllu eins og nú í sumar. Það mætti rekja til þess að neðar í Ölfusánni þar sem hún breiðir mikið úr sér væri hún talsvert grunn á stöku stað og þar sæti veiðibjallan fyrir laxinum.
Varðandi þær umræður hvort hætta bæri netaveiðum á laxi sagði Atli að um væri að ræða hlunnindi sem bundin væru eignarétti og útilokað að rífa slíkt af mönnum án bóta. Hann sagðist í sjálfu sér vera til viðræðna um að leigja út þessar netalagnir en enginn hefði gefið sig á tal við hann varðandi eitthvað slíkt.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |