Vaxandi þrýstingur er á veiðiréttareigendur um verulegar verðlækkanir vegna leigu á laxveiðiám. Sporðaköst hafa heimildir fyrir því að nokkrir leigutakar hafi þegar fundað með landeigendum og óskað eftir umtalsverðum lækkunum. Staðan á Vesturlandi er fordæmalaus og bæði eru margar ár í landshlutanum ótrúlega vatnslitlar og víða er einnig lítið af fiski. Þegar þetta fer saman er veiðivonin afskaplega lítil. Eina sem getur breytt stöðunni eru hressilegar rigningar en þær er ekki að sjá í kortunum fyrir þau svæði sem hafa orðið verst úti í vatnsleysinu.
Í einhverjum tilvikum eru viðræður í gangi milli leigutaka og landeigenda, en einnig er vitað að svar við einni slíkri beiðni var þvert nei. Þessar viðræður eru á viðkvæmu stigi en ljóst er að mikill titringur er á þessum markaði.
Mörg félög sem leigja laxveiðiár til endursölu fyrir veiðimenn eru búin að taka á sig verulegt tjón meðal annars í formi þess að menn mæta ekki og eru þar af leiðandi ekki að borga gistingu og fæði. Þekkt eru fjölmörg dæmi þess að leigutakar reynir að bæta mönnum upp veiðileysið með því að gera enn betur við viðskiptavini í mat og drykk og einnig hafa verið kallaðir til skemmtikraftar til að halda uppi góðri stemmningu.
Eftir samtöl við fjölmarga leigutaka óttast margir þeirra að stóra yfirvofandi tjónið kunni að vera sala á veiðileyfum fyrir næsta sumar. Fram til þessa hefur Ísland haft á sér það orð meðal erlendra veiðimanna að það væri alltaf öruggt að fara til Íslands. Þar væri alltaf hægt að treysta á einhverja veiði. Þó svo að árnar á Norð-Austurlandi séu undantekning í sumar eru margar ár sem hafa algerlega brugðist.
Reyndur leiðsögumaður sagði í samtali við Sporðaköst í dag að í raun ætti að loka einhverjum af þessum ám á Vesturlandi. „Þetta er ekki sú vara sem verið er að lofa viðskiptavinum. Í sumum ánum er hreinlega útilokað að ætla að setja í lax. Hvernig heldurðu að manni líði að vera að keyra með stóran hóp spenntra veiðimanna í vatnslausa á og þeir ætla að vera þarna í þrjá til fimm daga. Þetta er bara martröð,“ sagði leiðsögumaðurinn sem vildi ekki láta nafns síns getið.
Álag á starfsfólk veiðihúsanna er mikið um þessar mundir og margir leiðsögumenn eru nánast miður sin vegna ástandsins. Einn komst þannig að orði; „Maður hefur velt því fyrir sér að fara á geðlyf til að klára sumarið.“
Enn og aftur. Rigning mun snarbreyta ástandinu en að sama skapi sést hún ekki í kortum veðurfræðinga eins langt og hægt er sjá. Smá skúrir duga ekki. Það þarf úrhelli í nokkra daga til að bæta stöðuna að einhverju gagni.
Þar sem þurrkarnir hafa verið svo miklir er hætt við að tjón hafi orðið í seiðabúskap og getur það leitt til minni laxagengdar næstu árin. Það er ljóst að haustið getur orðið tíðindamikið á þessu sviði.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |