Norðausturhornið stendur upp úr

Erlendur veiðimaður með verklega hrygnu úr Sunnudalsá. Þar hefur byrjunin …
Erlendur veiðimaður með verklega hrygnu úr Sunnudalsá. Þar hefur byrjunin verið með ágætum eins og í flestum ám á Norðausturlandi. Ljósmynd/Aðsend

Þegar laxveiðin er skoðuð eftir landshlutum kemur í ljós að norðausturhornið sker sig úr. Þannig er veiði í Selá virkilega góð og á sama tíma er Hofsá að skila ágætri veiði og er fiskur dreifðari en menn hafa átt að venjast síðustu ár. Í Selá eru menn að skila allt að þrjátíu löxum í bók á dag og í Hofsá er veiðin oft í kringum tíu laxar á dag. Þegar síðustu veiðitölur birtust um miðja vikuna var Selá komin yfir 600 laxa og var með mestu vikuveiðina af öllum ám á landinu. Hofsá var þá komin í 325 laxa og var vikuveiðin 93 laxar.

Ingólfur Helgason hjá Veiðiklúbbnum Streng sem leigir árnar segir að vatnsstaða hafi verið með ágætum í sumar og geti þeir ekki kvartað yfir því. „Veiðin í Selá er mjög fín. Hvort hún verður meiri en í fyrra er erfitt að segja en menn eru sáttir hér. Varðandi Hofsána þá er bara ágætur gangur þar. Fiskur vel haldinn og við erum að sjá í báðum ánum nokkuð af smálaxi,“ sagði Ingólfur í samtali við Sporðaköst.

Sunnudalsá hefur skilað 53 löxum á tvær stangir en áin opnaði fyrir þremur vikum. Þá vekur veiðin í Miðfjarðará í Bakkafirði mikla athygli. Þar eru komnir á land 134 laxar en aðeins er veitt á tvær stangir í ánni. Miðfjarðará opnar frekar seint eða um mánaðamótin júní/júlí.

Aðrar ár í námunda, svo sem eins og Hafralónsá, Svalbarðsá og Hölkná eru allar að skila ágætri veiði. Norðausturhornið hefur oft og tíðum verið á skjön við það sem gerist almennt. Þessi landshluti virðist oft lúta öðrum lögmálum en aðrir landshlutar. Að þessu sinni er þetta svæði að skila mun betri veiði en gerist víða annars staðar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert