Draumafiskur veiddist í Hólsá í morgun, á austurbakkanum. Það var Margrét Ólafsdóttir sem setti í hænginn á rauðan Frances í Ármótahyl. Fiskurinn mældist 101 sentimetri og fellur þar með í tuttugu punda flokkinn. Veiði hefur verið með ágætum á austurbakkanum þó að leysingavatn hafi af og til sett strik í reikninginn og gildir það sama um Eystri-Rangá sem missti úr nokkra daga í síðustu viku þegar áin fór hreinlega í kakó.
Um 200 laxar eru komnir í bók á austurbakka Hólsár og einnig hafa þar verið að veiðast fallegir sjóbirtingar. Að sögn Stefáns Sigurðssonar sem er í leiðsögn á svæðinu eru birtingarnir sem eru að veiðast á bilinu tvö til þrjú kíló og lúsugir. Síðasti sólarhringur hefur gefið fimmtán laxa á sex stangir og flokkast það í dag sem góð veiði. Laxinn er smálax og tveggja ára fiskur í bland.
Þetta svæði sem kallast austurbakki Hólsár er í raun neðstu sex kílómetrarnir af Eystri-Rangá og sameinast Rangárnar neðarlega á svæðinu og renna sem ein til sjávar. Í góðu ári eru ekki margir staðir á Íslandi þar sem fleiri laxar fara í gegn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |