Mýrarkvísl mun betri en í fyrra

Veiðikonan Yamel Velasco frá Mexíkó með 74 sentímetra hrygnu úr …
Veiðikonan Yamel Velasco frá Mexíkó með 74 sentímetra hrygnu úr Mýrarkvísl. Ljósmynd/MÞH

Veiði í Mýrarkvísl, sem fellur í Laxá í Aðaldal hefur verið mun betri það sem af er sumri en síðustu tvö ár. Fjörutíu löxum hefur verið landað og er það tvöföld veiði miðað við sama tíma í fyrra. Mýrarkvísl er dæmigerð síðsumarsá og hefst veiði þar ekki að gagni fyrr en um miðjan júlí.

Matthías Þór Hákonarson er með Mýrarkvísl á leigu og hefur verið með erlenda veiðimenn í leiðsögn síðustu vikurnar. „Við erum búin að vera með fínustu veiði. Við erum með alveg tvöfalda veiði miðað við síðustu tvö ár á þessum tíma. Það er nóg vatn í ánni og mun meira af fiski en verið hefur og þetta er smálax og stærri í bland,“ sagði Matthías í samtali við Sporðaköst í morgun.

Mikil tregveiði var í fyrra og 2017 en nú horfir til betri vegar. „Það spilar líka inn í hjá okkur að hér var verið að taka upp íslenska bíómynd í tvær vikur í júlí og þann tíma vorum við ekki að veiða eða í leiðsögn. Þetta er kvikmyndin „Síðasta veiðiferðin“ og verður hún frumsýnd í vetur. En á meðan að á tökum stóð var lítið veitt þó að leikararnir hafi aðeins veitt. Samt erum við komnir í þetta góða tölu miðað við Mýrarkvísl á þessum tíma.“

Matthías Þór Hákonarson með stærsta fiskinn til þessa úr Mýrarkvísl. …
Matthías Þór Hákonarson með stærsta fiskinn til þessa úr Mýrarkvísl. 86 sentímetra löng hrygna. Sólarkafli og mikill hiti síðustu daga hefur aðeins dregið úr veiði, en nú er að kólna aftur. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist ekki hafa sérsaka skýringu á af hverju meira er af fiski. „Það er kannski helst að við erum með gott vatn og fiskurinn kemur strax inn og er ekki að hanga niðri í Laxá. Við búum svo vel að vera bæði með Kringluvatn og Langavatn hér fyrir ofan og því þurfum við svo litla rigningu til að lyfta yfirborðinu aðeins. Við þurfum ekki að bíða eftir að jarðvegur blotni og renni svo af honum.“

Flestir laxar í Mýrarkvíslinni í sumar hafa tekið hitch. Sá stærsti til þessa er 86 sentímetra hrygna sem Matthías landaði sjálfur. Hann segir að mikið hafi verið lagað af veiðistöðum upp á síðkastið og það tryggi betri dreifingu um ána. Það eru aflahæstu staðirnir í sumar. „Með þessu móti erum við heldur ekki bara að berjast í gilinu sem getur verið tæknilega krefjandi fyrir veiðimenn.“

Vorveiðin í Lónsá á Langanesi var mjög góð. Sérstaklega stórar …
Vorveiðin í Lónsá á Langanesi var mjög góð. Sérstaklega stórar bleikjur eiga heimkynni sín í ánni. Þessi mynd er frá í vor þar sem erlendur veiðimaður hampar gullfallegu eintaki. Ljósmynd/MÞH

Hann er einnig með silungsveiðiána Lónsá á Langanesi á sínum snærum og er úthaldið orðið langt og strangt hjá honum. „Ég byrjaði 1. apríl og hef verið að síðan með nokkurra daga undantekningum. Ég er ekkert orðinn þreyttur núna. Þegar eru að veiðast laxar á hverjum degi þá verður maður ekkert búinn á því. Það var erfiðara í fyrra þegar maður þurfti að horfa upp öll döpru andlitin. Allir horfðu á mig og spurðu; „Af hverju er ekki meiri veiði.“ Það er töluvert meira um brosandi andlit í ár.“

Í Lónsánni er nokkurt millibilsástand. Vorveiðin og fram á sumar var mjög góð. Bleikjan er nú að stórum hluta gengin fram á hálendið og styttist í að urriði og sjóbirtingur fara að mæta í ána.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert