Tröllslegur birtingur úr Vatnamótum

Hestabóndinn Hafliði Þ. Halldórsson búinn að taka birtinginn úr plastinu. …
Hestabóndinn Hafliði Þ. Halldórsson búinn að taka birtinginn úr plastinu. Hann áætlar að fiskurinn hafi verið búinn að vera um mánuð í ánni. Þetta er hans stærsti birtingur en fáir þekkja Vatnamótin jafn vel og Hafliði. Ljósmynd/Aðsend

Einn stærsti sjóbirtingur sem Sporðaköst hafa heyrt af lengi veiddist í gær í Vatnamótunum skammt fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Fiskurinn vó 23 pund og mældist sléttir hundrað sentímetrar. Það var Hafliði Þ. Halldórsson hestabóndi á Ármóti í skammt frá Hvolsvelli sem veiddi fiskinn í gær. „Ég hef ekki veitt svona stóran sjóbirting í Vatnamótunum frá því í gamla daga og sennilega er þetta sá stærsti sem ég hef veitt frá upphafi. Á síðustu öld náði ég tveimur sem voru 22 pund, en þessi er stærri,“ sagði Hafliði í samtali við Sporðaköst. Hann setti í annan fisk í þessum flokki en missti hann eftir töluverða baráttu. „Hann var ekki minni,“ sagði Hafliði.

Þeir félagar voru við veiðar í tvo daga og lönduðu ríflega fimmtíu fiskum. Aðstæður voru erfiðar hávaðarok og þurfti að vaða langt út til að komast að fiskinum. „Við vorum ofarlega og óðum út fyrir gruggið úr Hörgá og komumst þá í hreinan ál sem var feykiflottur og óhemja af fiski í. Við ætluðum að veiða á flugu en það var bara nánast vonlaust. Við tókum þetta allt á maðk og spún. En ég var hissa hversu mikið er af fiski á svæðinu.“

Hollið á undan Hafliða og félögum veiddi eingöngu á flugu og lönduðu þeir tólf fiskum. Veiðin í Vatnamótunum hefur verið að glæðast jafnt og þétt og er það í takt við aðrar ár á svæðinu. Megnið af þeim fiski sem Hafliði og félagar lönduðu var tíu til tólf punda birtingar. Einungis örfáir voru „litlir“ eða fimm pund.

Sendu mér mynd Hafliði.

„Hann er kominn í plast.“

Ekki vandamál. Taktu hann úr plastinu.

„Geri það.“

Vatnamótin er víðfeðmt svæði á söndunum austan Kirkjubæjarklausturs. Þau standa fyllilega undir nafni enda mæta Breiðbalakvísl, Fossálar og Hörgsá þar Skaftá.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert