Allir maríulaxar eru dýrmætir en sumir eru stærri en aðrir. Hún Elfa Hrund Guttormsdóttir fékk sinn fyrsta lax á ævinni í dag, sem sagt maríulaxinn. Hún er stödd í Langá og í morgun kom hún ásamt leiðsögumanni sínum, Árna Friðleifssyni að hylnum Stórhólakvörn. „Við settum undir fluguna Haugur og ég byrjaði að kasta og svo bara eftir smástund tók lax. Ég fékk kökk í hálsinn. Ég skal viðurkenna það, þetta var bara þannig tilfinning,“ sagði Elfa Hrund í samtali við Sporðaköst.
Hún sá tökuna í yfirborðinu en áttaði sig ekki alveg strax á hversu stór fiskur var á hinum endanum. Viðureignin við maríulaxinn tók þrjú kortér. „Ég var aldrei stressuð, bara leið virkilega vel enda með góðan leiðsögumann mér við hlið.“
Árni Friðleifsson sem flestir þekkja sem lögreglumann í Reykjavík og oftar en ekki á mótorhjóli aðstoðaði Elfu Hrund við þetta merkis verkefni.
Þegar laxinum var loksins landað mældist hann 88 sentímetrar og svona líka fallegur hængur. „Ég hélt að þetta væri kafari hann var svo stór. Ég sleppti honum og kyssti hann með orðunum; Bless ástin mín.“
Og ertu bara í skýjunum?
„Veistu hvað? Ég er í hamingjukasti. Veit bara ekki hvenær ég lendi,“ hló Elfa Hrund.
Hún segir að þetta verði bara byrjunin á veiðiferlinum og næst á dagskrá sé að fara í Víðidalsá. Þangað á hún tengingar.
Veiðin í Langá hefur heldur betur tekið kipp eftir langþráðar rigningar í Borgarfirði. Sumarið er loksins komið í laxveiðiárnar á svæðinu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |