Krókódílatíminn er runninn upp. Það er sá tími þegar stóru hængarnir verða árásagjarnir og eiga til að taka flugu veiðimanna, sem fram til þessa hefur vakið litla athygli. Landsliðskokkurinn Axel Björn Clausen upplifði þetta með skemmtilegum hætti í Víðidalsá rétt áðan.
„Við komum í Dalsárós og vissum af stórum fiskum. Ég ákvað eftir smátíma að setja undir Svarta-Pétur, sem hefur verið svona leiðsögumannafluga í Vatnsdal og víðar. Ég strippaði hana frekar hratt og þetta skrímsli negldi hana,“ sagði kátur Axel Björn í samtali við Sporðaköst rétt eftir að hafa sleppt fiskinum. Þetta var hængur og mældist hann 104 sentímetrar. Það er skondin tilviljun þar sem Jóhann Hafnfjörð Rafnsson, rekstraraðili Víðidalsár, landaði í morgun 104 sentímetra hæng í Laxá í Aðaldal á Nessvæðinu.
Axel Björn segir baráttuna hafa staðið í tuttugu mínútur og honum til aðstoðar var Jóhannes Hinriksson sem annast Ytri-Rangá.
„Þetta er stærsti lax sem ég hef landað,“ sagði landsliðskokkurinn. „Áður átti ég stærst 102 sentímetra og hann veiddist í Nesi. Sá lax var reyndar þykkari. En hausinn á þessum maður. Úff.“
Þetta er stærsti lax veiddur í Víðidal í sumar, en fram til þessa hefur sá stærsti verið 102 sentímetrar. Nokkrir laxar 100 og 101 sentímetri hafa veiðst. Vitað er um stærri fiska og munu veiðimenn spreyta sig við þá á næstu dögum og vikum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |