Tröllið í Silungabakka tók Dropann

Benedikt Magnússon með hænginn stóra úr Silungabakka í Víðidalsá. Hann …
Benedikt Magnússon með hænginn stóra úr Silungabakka í Víðidalsá. Hann segir allt hafa fallið með sér í þessari viðureign. Ljósmynd/Aðsend

Enn einn stórlaxinn kom á land úr Víðidalsá í gærkvöldi. Hann veiddist í Silungabakka sem er veiðistaður ofarlega á svæði eitt. Það var 104 sentímetra hængur sem tók fluguna Dropann hjá Benedikt Magnússyni. Græjurnar voru léttar. Stöng fyrir línu sex, fluga númer sextán og taumur uppgefinn sem ellefu punda.

Benedikt var að vonum kátur með fiskinn. „Ég held að lykillinn að því að ég setti í hann hafi verið að ég var svo slakur. Ég var ekki að leita að honum og átti í sjálfu sér ekki von á svona trölli á þessum stað. En þegar hann tók hreinsaði hann sig alveg þannig að ég sá strax hvað þetta var stór fiskur. Það fór ekkert á milli mála,“ sagði Benedikt í samtali við Sporðaköst.

Hér má sjá fluguna Dropinn. Þessi er númer sextán og …
Hér má sjá fluguna Dropinn. Þessi er númer sextán og dugði á stórlaxinn. Ljósmynd/BM

En hvaða fluga er þetta?

„Hún er ekkert ósvipuð Madeleine, nema að við blývefjum legginn þannig að hún fer örlítið niður. Við höfum veitt vel á þessa flugu í sumar og raunar fyrri ár.“

Þeir félagarnir nota Dropann mikið og eru nú staddir í Ásunum og þar er mikið líf og þeir hafa einmitt verið að setja í hann á Dropann.

Stórlaxastöngin í Víðidal

„Það féll allt með mér í þessari viðureign og var auðvelt að koma honum á dautt vatn til að þreyta hann. Ég endaði bara á að stranda honum og sporðtaka hann eftir um þrjátíu mínútur. Mér finnst þetta sérlega skemmtilegt þar sem ég setti þessa stöng síðast saman við Víðidalsá fyrir átta árum og þá fékk ég á hana 96 sentímetra hrygnu í Síðukrók. Þá var ég með míkró-hitch. Þetta er sannkölluð stórlaxastöng,“ sagði Benedikt og hló.

Þetta er annar 104 sentímetra laxinn sem veiðist í Víðidalsá á nokkrum dögum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert