Stærsti lax sem veiðst hefur í Grímsá kom á land í kvöld úr einum af efstu veiðistöðum árinnar, Oddstaðafljóti. Fiskurinn mældist 101 sentímetri og tók hann rauða Frances með kón. Veiðimaður var Sigurður Veigar Bjarnason og var hann að koma í fyrsta skipti í Grímsá. „Ég var búinn að vera þarna í rúma tvo tíma þegar ég setti í þennan lax. Ég var í tæpan hálftíma að slást við hann og þetta er fyrsti laxinn sem ég veiði í fjögur ár og í fyrsta skipti sem ég hef strandað fiski,“ sagði skælbrosandi veiðimaður í samtali við Sporðaköst í kvöld.
Jón Þór Júlíusson, framkvæmdastjóri Hreggnasa ehf., sem hefur haft Grímsá á leigu frá árinu 2004, staðfesti að þetta væri stærsti laxinn úr ánni í meira en tvo áratugi. „Við höfum verið að sjá þessa fiska síðustu ár en ekki tekist að setja í þá. Þetta er afskaplega ánægjulegur múr að brjóta og staðfestir að stórlaxinn er að koma aftur á Vesturlandið.“
Jón Ólafur Sigurjónsson landaði í gær enn einum 104 sentímetra laxi úr Víðidalsá og það á Dentist-túbu. Fiskurinn veiddist í Faxaholu og var Jón Ólafur um hálftíma að landa honum. Í samtali við Sporðaköst sagði hann að þetta hefði byrjað mjög fínt en á endanum fór hann niður og sótti hann. Jón Ólafur er tannlæknir og túban því við hæfi. „Ég var búinn að raða nokkrum flugum á hann, byrjaði á hitch. Fór svo að þyngja. Náði í sexu sem á er Stillwater, glær hægsökkvandi lína. Nota hana oft í miklu vatni eins og áin er núna.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |