Eftir tuttugu ára bið eftir hundrað sentímetra fiski úr Grímsá veiddist loksins slíkur fiskur í gærkvöldi. Hann veiddist í Oddstaðafljóti og mældist 101 sentímetri. Það sem meira er að hundrað sentímetra fiskur veiddist svo í morgun. Sá veiddist í Töðunefi og var veiðimaður Gunnlaugur Karl Hreinsson. Báðir þessir stórlaxar veiddust á rauða Frances með keilu.
Sigurður Veigar sem veiddi 101 sentímetra fiskinn er einmitt veiðifélagi Gunnlaugs og þeir báðir búnir að landa slíkum merkisfiski.
Leigutakar Grímsár staðfestu í gær að ekki hefði veiðst svo stór fiskur í tvo áratugi. Það er því magnað þegar þessi múr er loks rofinn að tveir slíkir fiskar veiðist á jafn mörgum dögum.
„Þetta var svakalegur fiskur. Hann negldi fluguna og lagðist strax. Sigurður Veigar hjálpaði mér að landa og þetta var svo þykkur og sterkur fiskur. Þetta var bara rosalegt,“ sagði mjög kátur Gunnlaugur í samtali við Sporðaköst nú fyrir skömmu.
Jón Þór Júlíusson, framkvæmdastjóri Hreggnasa ehf. sem leigir Grímsá, sagði í samtali við Sporðaköst að þeir hefðu séð þessa fiska síðustu ár en ekki tekist að veiða þá. Hann gladdist mjög yfir því að þessi múr hefði verið rofinn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |