Vikulegar veiðitölur bera merki haustsins. Víða hefur dregið úr veiði þrátt fyrir að eitt og eitt skot komi hér og þar. Það sem vekur mesta athygli er að Þverá/Kjarrá er fimmta áin í sumar sem fer yfir þúsund laxa. Heildarveiðin í gærkvöldi var 1.025 laxar. Það er Landssamband veiðifélaga sem tekur tölurnar saman og birtast þá á vefnum angling.is.
Annars hefur röð lítið breyst og efst trónir Eystri-Rangá. Þaðan höfðu ekki borist tölur fyrir síðustu viku. Ytri-Rangá er í öðru sæti með 1.473 laxa. Þá kemur Miðfjarðará með 1.420 fiska. Selá í Vopnafirði er skammt undan, en hafði ekki skilað tölum fyrir síðustu viku þegar þetta er skrifað.
Þverá/Kjarrá er í fimmta sæti með 1.025 laxa og er þar með fimmta áin sem fer í fjögurra stafa tölu. Væntanlega verða þær ekki fleiri í ár.
Urriðafoss í Þjórsá er í sjötta sæti með 746 laxa, en þar hefur veiði verið afar dræm síðari hluta sumars.
Laxá á Ásum er næst með 721 lax og hefur veiðin þar í sumar verið betri en í fyrra. Hofsá í Vopnafirði er í áttunda sæti með 642 laxa og skammt undan eru Blanda og Haffjarðará, báðar komnar yfir 600 laxa.
Síðasta vika einkenndist fyrst og fremst af fréttum af stórlöxum. Grímsá sá sína fyrstu 100 sentímetra fiska í tvo áratugi og fjórir slíkir veiddust í Víðidalsá í vikunni.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |