Lokatölur eru farnar að berast úr þeim laxveiðiám sem fyrstar voru opnaðar í vor. Norðurá hefur birt lokatölur sem miðast við 15. þessa mánaðar og þar kemur í ljós að þetta er eitt versta ár veiðilega í það minnsta frá 1974.
Lokatalan er 577 laxar. Þegar horft er til talna inni á vef Landssambands veiðifélaga kemur í ljós að á þessu 45 ára tímabili hefur veiði í ánni aðeins fjórum sinnum áður verið undir þúsund löxum. Minnst var veiðin árið 1984 þegar 856 laxar veiddust.
Elliðaárnar eru líka búnar að birta tölur yfir heildarveiði sumarið 2019. Lokatalan er 537 laxar en var 960 laxar í fyrra. Elliðaárnar hafa þó séð það svartara og í byrjun aldarinnar voru þrjú ár í röð þar sem veiddust færri en fimm hundruð laxar. Það sem bætti þó að verulegu leyti upp frekar magurt sumar í borgarperlunni var óvenjuhátt hlutfall stórlaxa.
Lokatölur úr neðri hluta Skjálfandafljóts er 330 laxar en var í fyrra 250. Búðardalsá lokar með 98 löxum á móti 331 í fyrra.
Straumarnir í Hvítá enduðu í aðeins 56 löxum þetta árið og er það einungis brot af því sem telst hefðbundið þar. Það er ekki óeðlilegt þegar horft er til þess hversu dræm veiði var í Norðurá, en fiskur á leið upp í hana fer um Straumana.
Af aflahæstu ánum er það að frétta að Eystri-Rangá er í efsta sæti og nálgast nú þrjú þúsund laxa. Talan stendur í 2.869 löxum. Miðfjarðará skaust upp í annað sætið með 1.533 laxa og Ytri-Rangá er í þriðja sæti. Selá hafði ekki skilað inn tölum, en þegar rafræna veiðibókin á angling.com er skoðuð sést að hún stendur i 1.460 löxum.
Þverá/Kjarrá eru í fimmta sæti með 1.132 laxa, þá Laxá á Ásum með 760, Urriðafoss með 747, Hofsá með 681. Þar á eftir koma á svipuðu róli Haffjarðará, Grímsá og Blanda, allar í kringum 640 laxa.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |