Veiðifólk er upp til hópa miklir myndasmiðir. Sumir vilja jafnvel meina að í stað þess að tala um veiða/sleppa eigi að tala um veiða/mynda/sleppa. Hvaða skoðun sem menn hafa á því er gaman að sjá allar þær flottu veiðimyndir sem hafa streymt inn til okkar í samkeppni Sporðakasta og Veiðihornsins í Síðumúla um bestu veiðimyndina sumarið 2019.
Hér ætlum við að birta nokkrar og fylgja með sögur með þeim flestum. Fyrst er til að taka myndina sem Helga Gísladóttir sendi okkur af buguðum veiðimanni í Laxá í Refasveit. Hann var að koma upp úr gljúfrinu og tröppurnar eru hvorki fleiri né færri en 89. Helga sagði í texta með myndinni að hún héti Bugaður veiðimaður. „Það var ekkert búið að vera að gerast. Veiðimaður er Valur Hentze. 89 tröppur í fullum skrúða taka á.“
Næst er það mynd frá Faxa í Tungufljóti. Þar var ágæt veiði í sumar. Fyrri myndin sem við birtum hér, eftir Bjarka Tómasson sýnir vel fallega fossinn Faxa. Hann skrifaði þennan texta með: „Þessi mynd er úr fyrsta túr bróður míns þar sem fyrirkomulagið er fly only. Stuttu eftir að þessi mynd er tekin landaði hann svo sínum fyrsta flugulaxi í stórbrotnu landslagi. Áður en við vissum af var fullt af erlendum ferðamönnum mætt við bakkann og fögnuðu þeir gríðarlega, þeir skildu samt ekki alveg af hverju við slepptum fiskinum aftur, það fannst þeim alveg stórskrítið. Myndin af fossinum er fyrir keppnina en hin myndin er til sönnunar um fiskinn.“
Bróðir Bjarka sem landaði sínum fyrsta flugulaxi, heitir Kári Tómasson og laxinn hans tók bláan Sunray og mældist þessi hrygna 82 sentímetrar.
Svo er það sannkölluð sumarstemma frá Norðurá. Hann Sigurður Skúli Bárðarson, leiðsögumaður við Norðurá, sendi okkur þessa og skrifaði með. „Sendi hér mynd sem er dæmigerð fyrir líðandi veiðisumar, sól, logn og skortur á vatni. Réttarhylur. Grábrók og Hraunsnefsöxl í bakgrunni.“ Þetta er enn ein myndin sem okkur berst sem er dæmigerð fyrir sumarið. Gaman að sjá hvað er hægt að grípa oft eitt augnablik sem getur lýst heilu sumri.
Loks er það veiðimaður sem lætur ekki barneignir stöðva sig. Hér er veitt í Grafará í Skagafirði. Myndasmiður er Óli Foss og með í för er sex vikna sonur hans, Adrían Atlas Foss.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |