Veiðimyndir eru ekki bara af fólki að halda á fiski. Myndefnin í náttúrunni eru svo óendalega fjölbreytt og þessar myndir sem við birtum í dag úr samkeppninni um bestu veiðimynd ársins bera allar þess merki.
Fyrsta myndin er úr Vatnsdalsá, nánar tiltekið úr Bríkarhyl. Myndasmiður er Geir Jón Geirsson og kallar hann myndina Fjölskylda á leið í veiðiferð.
Því næst er það mynd sem tekin var í lok júní, á Arnarvatnsheiði, þeirri miklu silungsveiðiparadís. Hér er náttstaður við Hlíðarvatn. Höfundur er Benedikt Þorgeirsson.
Eitt gjöfulasta veiðivatn landsins, Heiðarvatn við Vík í Mýrdal er viðfangsefni Halldórs Páls Kjartanssonar sem sendi okkur þessa mynd. Heiðarvatn fóstrar flestar tegundir laxfiska sem halda til í íslenskum vatnakerfum. Bleikjan er oft hnausþykk og þar má setja í bæði staðbundinn urriða og sjóbirting. Svo þegar líður fram á sumar er líka laxavon í vatninu. Vatnsá rennur úr Heiðarvatni og sameinast Kerlingardalsá á leið sinni til sjávar.
Þá færum við okkur ofurlítið austar. Þessa mynd tók Snorri Jónsson. Hún er tekin í Grenlæk, nánar tiltekið í Flóðinu. Þetta er neðst í Flóðinu og nefnist staðurinn Trektin. Myndin var tekin í fallegri kvöldstillu 6. september. Veiðimennirnir á myndinni eru Guðmundur Ragnar Snorrason og Þorleifur Kristinn Sigurþórsson.
Loks er það önnur mynd frá Geir Jóni Geirssyni úr Vatnsdalsá. Þarna er Gunnþór Guðjónsson, veiðifélagi Geirs, með fisk á í veiðistaðnum Glaumi. Náttúran og hennar undur taka fullan þátt í þessari viðureign.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |