Síðustu dagar í sjóbirtingsveiðinni í Geirlandsá hafa verið afar skrautlegir. Hollið sem er að ljúka veiðum á hádegi í dag lenti í kolvitlausu veðri. Hífandi rok og slagveðurs rigning gerðu mönnum erfitt fyrir. Svo mikil var úrkoman að áin fór úr átta rúmmetrum í níutíu. Ellefu faldaðist á nokkrum klukkutímum.
Það sem kom mönnum hins vegar skemmtilega á óvart var að tveir stærstu fiskar haustsins veiddust við þessar aðstæður. Sá stærsti til þessa mældist 86 sentímetrar og var það Þorlákur Marteinsson sem veiddi hann í Tóftinni sem er beint fyrir neðan veiðihúsið. Um svipað leiti veiddist 84 sentímetra birtingur og þar var að verki Ragnar M. Ragnarsson. Sá fiskur tók svartan Toby spún í ármótum og var sleppt.
Áin sjatnaði mikið í nótt og voru komnar góðar aðstæður í morgun. Þá glæddist veiðin og voru fiskar stökkvandi um allt, að sögn Jóns Kristins Jónssonar sem er að veiðum í Geirlandsá. Snemma í morgun voru þeir búnir að landa tveimur.
„Þetta er búið að vera erfitt sökum veðurs en við erum mjög sáttir með veiðina. Þessi síðasta vakt þá er allt komið í kjör skilyrði og við erum að verða varir við fisk um alla á,“ sagði Jón Kristinn í samtali við Sporðaköst og var þá rétt búinn að landa fallegum sjóbirtingi sem var sleppt. „Hollið á undan okkur landaði 24 fiskum upp í áttatíu sentímetra.“
Geirlandsá er ein af nafntoguðustu sjóbirtingsám V-Skaftafellssýslu. Þar er veitt á fjórar stangir og er þriggja fiska kvóti á stöng á dag.
„Við fréttum af hollinu sem er að veiða í Grenlæk og þeir lönduðu sjö birtingum í ljósaskiptunum í gærkvöldi, um leið og fór að lygna,“
Geirlandsáin hefur verið hratt fallandi og er ljóst að síðdegis verður áin að öllum líkindum komin í kjörvatn. „Við öfundum gæjana sem eru að taka við af okkur,“ sagði Jón Kristinn brosandi.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |