Boltarnir tóku í illviðrinu

Ragnar M. Ragnarsson með 84 sentímetra sjóbirting sem tók svartan …
Ragnar M. Ragnarsson með 84 sentímetra sjóbirting sem tók svartan Toby í Ármótum. Þessum fiski var sleppt. Ljósmynd/Aðsend

Síðustu dagar í sjóbirtingsveiðinni í Geirlandsá hafa verið afar skrautlegir. Hollið sem er að ljúka veiðum á hádegi í dag lenti í kolvitlausu veðri. Hífandi rok og slagveðurs rigning gerðu mönnum erfitt fyrir. Svo mikil var úrkoman að áin fór úr átta rúmmetrum í níutíu. Ellefu faldaðist á nokkrum klukkutímum. 

Það sem kom mönnum hins vegar skemmtilega á óvart var að tveir stærstu fiskar haustsins veiddust við þessar aðstæður. Sá stærsti til þessa mældist 86 sentímetrar og var það Þorlákur Marteinsson sem veiddi hann í Tóftinni sem er beint fyrir neðan veiðihúsið. Um svipað leiti veiddist 84 sentímetra birtingur og þar var að verki Ragnar M. Ragnarsson. Sá fiskur tók svartan Toby spún í ármótum og var sleppt.

Þorlákur með stærsta sjóbirting haustsins til þessa úr Geirlandsá. Þessi …
Þorlákur með stærsta sjóbirting haustsins til þessa úr Geirlandsá. Þessi tók maðk í Tóftinni. Ljósmynd/Aðsend

Áin sjatnaði mikið í nótt og voru komnar góðar aðstæður í morgun. Þá glæddist veiðin og voru fiskar stökkvandi um allt, að sögn Jóns Kristins Jónssonar sem er að veiðum í Geirlandsá. Snemma í morgun voru þeir búnir að landa tveimur.

„Þetta er búið að vera erfitt sökum veðurs en við erum mjög sáttir með veiðina. Þessi síðasta vakt þá er allt komið í kjör skilyrði og við erum að verða varir við fisk um alla á,“ sagði Jón Kristinn í samtali við Sporðaköst og var þá rétt búinn að landa fallegum sjóbirtingi sem var sleppt. „Hollið á undan okkur landaði 24 fiskum upp í áttatíu sentímetra.“

Jón Kristinn með birting frá í morgun. Þessum var sleppt …
Jón Kristinn með birting frá í morgun. Þessum var sleppt og hafa sleppingar á fiski aukist mjög í Geirlandsá frá því sem áður var. Ljósmynd/Aðsend

Geirlandsá er ein af nafntoguðustu sjóbirtingsám V-Skaftafellssýslu. Þar er veitt á fjórar stangir og er þriggja fiska kvóti á stöng á dag.

„Við fréttum af hollinu sem er að veiða í Grenlæk og þeir lönduðu sjö birtingum í ljósaskiptunum í gærkvöldi, um leið og fór að lygna,“

Geirlandsáin hefur verið hratt fallandi og er ljóst að síðdegis verður áin að öllum líkindum komin í kjörvatn. „Við öfundum gæjana sem eru að taka við af okkur,“ sagði Jón Kristinn brosandi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert