Einhver allra stærsti sjóbirtingur sem veiðst hefur í Eyjafjarðará kom á land um helgina. Þetta var 95 sentimetra fiskur og veiddist í hinum magnaða Munkaþverárhyl. Jón Gunnar Benjamínsson, stjórnarmaður í Veiðifélagi Eyjafjarðarár, staðfesti í samtali við Sporðaköst að þetta væri einn sá allra stærsti sem hann myndi eftir úr ánni.
Birtingurinn úr Munkaþverárhyl vigtar yfir tuttugu pund. Hann fékk hins vegar frelsi og mun án efa nýta það til að koma næstu kynslóð á kortið. Karl Olsen, kokkur á snurvoðarbátnum Hafrúnu HU, setti í fiskinn og landaði.
„Þetta var geggjuð viðureign. Þetta var á sex gramma spinner. Það var ógeðslega hvasst og ég var með mjög netta stöng. Ég var alla vega í tuttugu mínútur með hann og það var allt í keng allan tímann. Þessi fiskur er örugglega 22 til 23 pund. Það er pottþétt. Ég var hins vegar með silungapundara og setti á girnið og hann sló í botn. Það eru tíu kíló þannig að ég bókaði hann þannig,“ sagði Karl í samtali við Sporðaköst. Hann hefur aldrei áður veitt á svæði eitt í Eyjafjarðará. „Ég fór einu sinni á neðsta svæðið og varð mjög hrifinn. Svo vorum við í bústað núna í nágrenninu og þá sá ég að var laust á svæði eitt og stökk til. Ég landaði fjórum bleikjum og tveimur sjóbirtingum. En þetta var langstærsti fiskurinn.“
Það hefur vakið sérstaka athygli í sumar hversu mikill uppgangur sjóbirtingsins virðist vera og það um allt land. Við höfum sagt margar fréttir hér í sumar af tröllauknum sjóbirtingum og er Suðurlandið alls ekki eini landshlutinn þar sem þessir glæsilegu fiskar hafa verið að veiðast.
Það er enn opið í Eyjafjarðará og verður veitt þar til 10. þessa mánaðar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |