Gæsaveiðin komin á fullt skrið

Veiðin í Melasveitinni hefur verið mjög misjöfn. En nú er …
Veiðin í Melasveitinni hefur verið mjög misjöfn. En nú er besti tíminn að renna upp. Ljósmynd/ES

„Þetta hefur verið alla vega. Sumir morgnar hafa verið lélegir og aðrir alveg ofsalega góðir,“ sagði Stefán Sigurðsson hjá Iceland Outfitters, þegar hann var spurður út í gæsaveiðina í Melasveitinni, milli Akranes og Borgarnes, nú í haust. IO hefur selt gæsaveiðileyfi í nokkur ár og kostar byssan á dag á bilinu 25 til 35 þúsund krónur. Seldar eru fjórar byssur saman og er kvóti á byssuna sextán fuglar á dag, eða í morgunfluginu. Menn geta valið um að kaupa leiðsögumann.

„Veðrið stjórnar mestu í þessu. Þegar er logn og sól er þetta mjög erfitt en þegar er kalt og rigning þá gengur þetta betur.“ Stefán segir að á þeirra svæði sé besti tíminn í október og  ef ekki kemur snjór þá er nóvember einnig góður. Hann hefur hins vegar upplifað að veiða út desember þegar haustin hafa verið mild. „Þau haust sem við höfum getað veitt í nóvember og desember, þá gerum við mikla veiði. Fuglinn hefur úr minna að moða og leitar þá í ákveðnar í kornakrana.“

Hann er aldrei með meira en fjórar byssur á dag á svæðinu og þegar komið er fram á þennan tíma er skotið á hverjum degi. Í upphafi tímans er skotið sjaldnar, enda minna af fugli komið á svæðið og þá er ekki skotið nema annan hvern dag. Það er gerlegt að skjóta svona oft þar sem svæðið er mjög stórt og IO er með ríflega þrjátíu kornakra á sínum snærum og eftir að skotið hefur verið á fuglinn færir hann sig til á svæðinu.

Góður felubúnaður og gervigæsir eru lykilatriði að því að gera …
Góður felubúnaður og gervigæsir eru lykilatriði að því að gera góða gæsaveiði. Stefán er að nota 80 til 100 gervigæsir hvern morgun. Ljósmynd/ES

„Það er aldrei hægt að stóla á neitt. Þetta er bara þannig sport. Þú getur aukið líkurnar með því að þekkja svæðið vel og vita hvernig fuglinn hagar sér að öllu jöfnu. Ég tel að það séu komnar ríflega þrjú þúsund fuglar sem sækja í okkar svæði og þetta er svona tíminn þar sem við förum að finna mun. Fuglinn að norðan er að koma og er að fljúga yfir hjá okkur.“

Að lang stærstum hluta er um ræða grágæs eins í flestum kornökrum. En þó hefur það verið að gerast síðari ár að hlutfall heiðagæsar hefur verið að aukast. „Þetta hefur verið nánast níutíu prósent grágæs en undanfarin ár hefur mér fundist vera meira af heiðagæs og við erum alltaf að fá nokkrar með á hverjum morgni,“ Stefán.

Bæði Íslendingar og erlendir veiðimenn stunda akrana hjá IO og segir Stefán mikið um að menn komi aftur, bæði þeir erlendu og Íslendingarnir.

Stefán hefur unnið sem leiðsögumaður í þrjá áratugi. Fyrst og fremst sem leiðsögumaður í stangaveiði en fyrir nokkrum árum bættist gæsaveiðin við. Hann segir þetta klárlega erfiðustu vinnuna þegar kemur að leiðsögn. „Þetta er mikil vinna og yfirlega. Líka mjög líkamlega erfið. Við erum að moka skurði og holur nánast á hverjum morgni. Það tekur tíma að stilla upp og gera allt klárt.„

Þetta eru langir dagar og menn þurfa að vera klárir …
Þetta eru langir dagar og menn þurfa að vera klárir við sólarupprás. Ljósmynd/ES

Uppstillingin hjá þeim á morgnanna eru á bilinu áttatíu til hundrað gervigæsir. En þá er það lykilspurningin. Hvernig ertu að stilla þeim upp?

„Lykilatriði er að vera með vindinn í bakið. Þá er hún að koma beint á okkur og er ekki að hringsóla yfir uppstillingunni. Við stillum þessu upp þannig að það er opnun fyrir hana til að lenda fyrir miðju. Ýmist tveir hópar eða skeifulaga og við erum ekki með gervigæsirnar of nálægt okkur. Svo getur vindur breyst og við erum oft að fínstilla uppstillinguna fram eftir morgni.“

Almennt er fuglinn á þeirra svæði vel haldinn og hefur notið góðs af góðu sumri. Stefán segist þó sjá mikinn mun á stærð ungfuglsins og telur hann það merki um að eitthvað hafi verið um að gæsin verpti tvisvar. „Við erum að sjá unga sem eru frekar litlir og svo eru aðrir óvenju stórir. Enda var sumarið afskaplega gott.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert