Grænland: Árnar þykkar af bleikju

Torfurnar eru svo stórar og miklar að það er erfitt …
Torfurnar eru svo stórar og miklar að það er erfitt að trúa því nema hreinlega sjá það með eigin augum. Árnar eru bókstaflega þykkar af bleikju. Þetta er í ánni Ilua. Ljósmynd/Reynir Friðriksson

Einhver albesta bleikjuveiði sem hægt er að komast í er á Grænlandi. Þegar vorar byrjar bleikjan að ganga upp í ferskvatnið og magnið er ótrúlegt. Einn af þeim sem hefur stundað Grænland síðustu ár, bæði við veiðar og einnig sem leiðsögumaður veiðimanna er Reynir Friðriksson.

Hann var á Grænlandi í sumar og segir þessa veiði hreinlega vera ævintýri. „Þarna er svo mikið af ósnortinni náttúru og fegurð að þetta er ævintýraheimur.“

Algeng stærð af bleikju er á bilinu 45 til 50 sentímetrar. Auðvitað eru til ár sem geyma stærri fiska og innan eru alltaf stærri bleikjur. Stærsta bleikjan sem Reynir fékk í sumar á Grænlandi var 62 sentímetrar. Það er orðinn býsna vænn fiskur.

Fyrstu bleikjurnar byrja að ganga úr sjó í byrjun júlí, en vertíðin er komin á fullt upp úr miðjum mánuðinum. Þá fjölgar fljótt í ánum og veiðin eykst að sama skapi. „Veiðitíminn er frá júlí og út september. Göngur hefjast í byrjun júlí en þá er oft hægt að setja í stærstu fiskana,“ sagði Reynir Friðriksson í samtali við Sporðaköst.

Reynir Friðriksson með fallega sjóbleikju sem tók bleikan Dýrbít.
Reynir Friðriksson með fallega sjóbleikju sem tók bleikan Dýrbít. Ljósmynd/Aðsend

Hann er genginn til liðs við Halldór Ingvason á Akureyri sem er með fyrirtækið South Greenland fly fishing.

„Við erum með aðgang að tíu vatnasvæðum og bjóðum upp á tvenns konar fyrirkomulag. Fólk getur valið að gista í tjöldum í eyðifjörðum og ganga út frá tjöldunum eða að halda til í Narsaq sem er í um klukkustundar siglingu frá Narsarsuaq. Það er sú tilhögun sem ég er að mæla með við mitt fólk. Þá er siglt daglega á ólík vatnasvæði og það er mjög fjölbreytt.“

Hefðbundinn veiðidagur gengur þannig fyrir sig að menn eru komnir í morgunmat klukkan átta og siglt af stað um klukkutíma síðar. Siglingin tekur klukkutíma eða tvo, eftir því hvert er farið. Svo tekur sjálf veiðin við og er veitt þar til síðdegis að siglt er til baka til Narsaq.

Það er fátt skemmtilegra en að sjónveiða. Vatnið er svo …
Það er fátt skemmtilegra en að sjónveiða. Vatnið er svo tært að hvert einasta viðbragð hjá bleikjunni sést vel. Ljósmynd/Reynir Friðriksson

Flest vatnasvæðin eru tærar bergvatnsár. Þó hafa þeir yfir að ráða einu vatni og einni jökulá. „Vatnið er alveg ótrúlegt og svo tært að þegar er hægviðri þá er hægt að horfa á eltingarnar. Jökuláin sem við veiðum oft gefur stærstu fiskana og hún er svona svipuð Blöndu á litinn." Reynir segir allar hefðbundnar veiðiaðferðir virka vel, hvort sem er andstreymis á púpur eða straumflugur og einnig virka þurrflugurnar vel.

Myndin sem Reynir tók og fylgir fréttinni er úr pínulítilli á sem heitir Ilua. Veiðistaðurinn  kalla þeir félagar einfaldlega Klettinn. „Þetta var nú það mesta sem ég sá, en víða eru gríðarlegar torfur af bleikju. Þarna voru einhver þúsund fiska á smá svæði. Ég var þarna með óvana menn og þeir lönduðu fimmtíu fiskum og misstu miklu fleiri. Voru byrjendur í fluguveiði."

Spurður um kostnað segir Reynir að með fluginu frá Reykjavík sé kostnaður á dag um hundrað þúsund á manninn. Miðað við nokkrir saman og dvöl í fjóra daga. Þá er í raun allt innifalið.

Eins og íslensku bleikjurnar eru þær hrifnar af Króknum.
Eins og íslensku bleikjurnar eru þær hrifnar af Króknum. Ljósmynd/Reynir Friðriksson

Eitt af því sem menn þurfa að undirbúa sig fyrir er moskítóflugan. „Síðasta sumar var nánast engin fluga enda mjög þurrt. En menn þurfa að taka með sér sprey og krem til að verjast flugunni ef hún sprettur upp. Svo hef ég líka prófað skyrtur frá Simms sem eru með innbyggðri vörn. Ég hef notað þær og það virkar ótrúlega vel.“

Fleiri félög eru að bjóða upp á ferðir til Grænlands, eins og Lax-á og jafnvel fleiri. Áhugasamir geta kynnt sér upplýsingar á heimasíðum þessara félaga. www.lax-a.is og Reynir og Halldór eru með síðuna www.southgreenlandflyfishing.com.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka