Fyrsti veiðidagur á rjúpu er á föstudag, 1. nóvember. Dögum hefur verið fjölgað og nú er fyrirkomulagið með þeim hætti að veiða má alla daga í nóvember nema miðvikudaga og fimmtudaga. Heimilt er að veiða föstudag til og með þriðjudegi. Með þessu móti fjölgar veiðidögum í 22 en voru 15 í fyrra.
Nú þegar þetta er að bresta á er skynsamlegt að fara yfir búnaðinn. Bera á skóna, kanna stöðu á rafhlöðum ef menn eru með talstöðvar eða GPS tæki. Kaupa nýjar rafhlöður og vera með til vara. Einnig er mjög skynsamlegt að rifja upp notkun á GPS tækinu, hvort sem það er í símanum eða sjálfstæðu tæki. Það er lítið gagn í slíku tæki ef menn kunna svo ekki á það.
Finna til skotvopnaleyfi og veiðikort og passa að þetta sé með í för. Góð regla er að kynna sér vel svæðið sem haldið er til veiða á og þar er svo sannarlega kominn nýr og góður möguleiki inni á síðunni map.is. Valinn er flipinn lengst til hægri upp í horninu og þá opnast lítill gluggi. Haka við plúsinn á sérkorti og í framhaldi af því að haka við bæði eignarmörk og friðuð svæði. Þá er hægt að hefja leitina og skoða hvort heimilt er að veiða á svæðinu.
Auðvitað þrifu allir byssuna eftir síðustu veiðiferð en sjálfsagt er að smyrja aðeins betur og strjúka yfir hana með olíu.
Eru skotin klár? Og nóg af þeim? Þetta eru allt hlutir sem er gott að huga að í vikunni þannig að veiðifólk fara rétt og vel útbúið af stað. Svo er það náttúrulega veðurspáin og hafa í huga að veiðimenn eru hvattir til hóflegrar veiði og að sama skapi góðrar umgengni og það felur í sér að tína upp skothylki og annað rusl sem á vegi verður.
Einn góður siður er að taka með sér dagblað og pakka hverri rjúpu inn í eina opnu. Þá halda þær betur lit sínum og verða síður allar blóðstorknar. Það er gaman að gera að fallegum rjúpum þegar aðfangadagur er á næsta leiti.
Það er sölubann á rjúpu og markmiðið er því að veiða fyrir sig og sína.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |