Lönduðu þeir laxbirtingi í Leirá?

Sprækur sjóbirtingur kvaddur í Leirá í dag.
Sprækur sjóbirtingur kvaddur í Leirá í dag. Ljósmynd/Elías Pétur

Opnunin í Leirá í Leirársveit vakti mikla athygli. Þessi litla á hefur ekki verið hátt skrifuð en þar er nú hörkuveiði og veiðimenn sem veiddu hana í dag lönduðu fjórtán sjóbirtingum og líkast til tveimur laxbirtingum. Slíkir fiskar er afkvæmi lax og sjóbirtings eins og nafnið gefur til kynna.

Laxbirtingur? Ólafur Tómas Guðbjartsson með fiskinn sem viðstaddir töldu laxbirting. …
Laxbirtingur? Ólafur Tómas Guðbjartsson með fiskinn sem viðstaddir töldu laxbirting. Það er afkvæmi sjóbirtings og lax. Hvað sýnist ykkur? Ljósmynd/Elías Pétur

Ritstjóri Sporðakasta hefur einu sinni séð laxbirting sem var staðfest af fræðingi að væri slík blanda. Það var í Tungulæk við tökur á Sporðakastaþætti. Einn slíkur veiddist eftir að birta hafði fallið og var því ekki hægt að mynda hann almennilega en veiðimaður þáttarins Össur Skarphéðinsson staðfesti að um slíkan blending væri að ræða. Nú væri gaman að heyra álit manna á þessari mynd.

Ólafur Tómas Guðbjartsson sem veiddi fiskinn segir að hann hafi verið ótrúlega vel haldinn og framþykkur en samt með krókinn.

„Það er búið að vera svo gaman að fylgjast með Leirá eftir að Iceland Outfitters tók við ánni. Stebbi og Harpa tóku strax upp veiða/sleppa og maður sér þá stækka um tíu sentímetra á milli ára. Við vorum að veiða sleggjur þarna í dag,“ sagði Ólafur í samtali við Sporðaköst í kvöld.

Vorveiði. Tekist á við birting í Leirá.
Vorveiði. Tekist á við birting í Leirá. Ljósmynd/ Elías Pétur

Þeir félagar, hann og Elías Pétur Viðfjörð  einn af Villimönnunum  lönduðu fjórtán flottum sjóbirtingum í Leirá í dag. „Ég hætti. Var bara orðinn þreyttur á að togast á við fiska,“ hlær Ólafur Tómas. Hann heldur úti Dagbók urriða á snapchat og birtir þar mikið efni sem vert er að skoða.

Á hinni stönginni í Leirá í dag var Elías Pétur Villimaður og hann sagði daginn hafa verið frábæran. „Það var ótrúlegt að sjá í fjarkanum, eða Brúarhyl, að á heitasta tíma dagsins voru fiskar að „head og taila“. Ég hef ekki séð þetta áður í vorveiði,“ sagði Elías Pétur í samtali við Sporðaköst í kvöld.

Glæsilegur birtingur myndaður áður en hann fékk frelsi á ný. …
Glæsilegur birtingur myndaður áður en hann fékk frelsi á ný. Elías Pétur er veiðimaðurinn með þennan fallega birting. Ljósmynd/Aðsend

Þeir félagar slitu úr nokkrum fiskum og skemmtilegt atvik átti sér stað. „Óli setti í flottan fisk á Squirmy wormy og eftir nokkur nokkurn bardaga sleit hann. Um það bil hálftíma síðar setti ég í fisk á sama stað á sömu flugu og landaði honum. Hann var þá með fluguna hans Óla í kjaftinum. Þetta kallar maður græðgi,“ hló Elías. Hann er einnig að birta mikið efni á samfélagsmiðum ásamt félögum sínum sem mynda hópinn Villimenn. Vel þess virði að kíkja á það fyrir veiðiþyrsta.

Þeir félagar Óli og Elías hafa veitt Leirá í opnun síðustu fjögur ár. Þeir eru sammála um að fiskurinn fari mjög stækkandi eftir að veiða/sleppa-fyrirkomulag var tekið upp. 

„Fyrst þegar við vorum hér vorum við að fá 40 til 50 sentímetra fiska, svo hafa þeir farið stækkandi ár frá ári og í dag vorum við að landa upp í 73 sentímetra sjóbirtingum.“

Það er til breskt orðatiltæki: If you take care of the river, the river will take care of you. Þetta útleggst þannig: Ef þú hugsar vel um ána þína mun hún gleðja þig.

Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín kona hans tóku Leirá á leigu fyrir þremur árum og settu strax á skyldusleppingu. Nú er Leirá komin á kortið og geymir mikið af fiski og hlutfall stórfiska er að aukast.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert