Óvenjumikið um risa birting í Eldvatni

Erlingur Hannesson með stórlaxinn úr Eldvatni. 96 sentímetrar. Einhvern veginn …
Erlingur Hannesson með stórlaxinn úr Eldvatni. 96 sentímetrar. Einhvern veginn læðist að manni grunur að þetta kunni að vera blendingur. Ljósmynd/Aðsend

Það sem af er veiðitíma í sjóbirtingsánni Eldvatni í Meðallandi hefur borið á töluverðu magni af mjög stórum sjóbirtingum. Veiðin hófst með látum í upphafi mánaðar en nú hefur hægst á henni í bjart- og blíðviðrinu undanfarna tíu daga.

Stærsti skráði fiskurinn, eftir að síðari hluti tímabilsins hófst og raunar í ár, er 96 sentímetra lax sem Erlingur Hannesson landaði í Hvannakeldu um helgina. Þrír 92 sentímetra sjóbirtingar hafa komið á land og margir 80 til 87 sentímetra. Þriðji 92 sentímetra fiskurinn kom á land í gær.

Skorri Andrew Aikman með 92 sentímetra birting úr Eldvatni. Þetta …
Skorri Andrew Aikman með 92 sentímetra birting úr Eldvatni. Þetta er einn af þremur í þeirri stærð sem hafa veiðst nú síðsumars. Sá síðasti veiddist í gær. Ljósmynd/Erlingur Hannesson

Þá eru ótaldir stóru fiskarnir sem veiðimenn hafa ekkert ráðið við. Fiskar sem hafa straujað í einni roku upp í 150 metra og slitið sig lausa. „Við höfum lent í nokkrum slíkum stórfiskum sem menn hafa bara hreinlega ekki haft roð við. Auðvitað skiptir máli við hvaða aðstæður menn setja í þessa fiska en við höfum ekki séð fyrr í byrjun svo mikið af stórum birtingi og leyfum okkur að halda að það hafi með sleppingarnar að gera. Við höfum sleppt nánast öllum birtingi hér í fimm ár og það er vitað að hann kemur aftur og aftur,“ sagði Erlingur Hannesson í samtali við Sporðaköst.

Erlingur með 92 sentímetra birting. Þetta eru svakalegir fiskar miðað …
Erlingur með 92 sentímetra birting. Þetta eru svakalegir fiskar miðað við að þetta er jú silungur. Ljósmynd/Aðsend

Hann landaði einmitt 96 sentímetra laxinum um helgina og fékk hann fiskinn í Hvannakeldu, efst í þeim veiðistað. Laxinn tók Sunray Shadow.

Tvær veiðiaðferðir virka jöfnum höndum þessa dagana í Eldvatninu. Það er annars vegar hefðbundin straumfluguveiði og svo andstreymisveiði með púpum og jafnvel tökuvara. En það fer eftir smekk.

Ef raða ætti í flugubox fyrir veiðimenn sem eru að fara í Eldvatn eða aðrar sjóbirtingsár yrðu fyrstu fimm flugurnar þessar; Copper John, Black Ghost (raunar nokkrar útfærslur), Sunray Shadow, Dýrbítur, bæði bleikur og appelsínugulur, og síðast en ekki síst Flæðarmús.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert