„Þetta er ekki búið“

Ólafur Vigfússon sleppir 82 sentímetra hrygnunni sem náðist í Hnausastreng …
Ólafur Vigfússon sleppir 82 sentímetra hrygnunni sem náðist í Hnausastreng í Vatnsdalsá rétt fyrir níu. Flugan Leifur gerði gæfumuninn. Ljósmynd/Aðsend

Klukkan er fimm mínútur í níu. Staðurinn er Hnausastrengur í Vatnsdalsá. Morgunvaktin hafði núllað og kvöldvaktin hafði ekki fengið högg. Hann var þó að sýna sig á hefðbundnum stöðum. Fjölmörgum flugum var kastað og öllum brögðum beitt en ekkert gekk. Öll stóru nöfnin í fluguboxunum voru rennblaut en allt án árangurs.

Hnausastrengur er stór veiðistaður og ber vel tvær samrýndar stangir í mesta bróðerni. Klukkan er fimm í níu, og uppgjöf í loftinu þegar veiðimaður á bakkanum segir: „Þetta er ekki búið. Ég ætla að kasta flugu sem aldrei hefur verið kastað í þessa á.“ Það er Ólafur Vigfússon í Veiðihorninu sem neitar að gefast upp. Flugan sem hann fékk í höfuðið var flugan Leifur eftir Einar Pál (Palla í Veiðihúsinu). Flugan sem við kynntum einmitt fyrir veiðimönnum hér á síðunni í morgun.

Þrjár í níu. Kvöldsólin litar dalinn og mikill sigur unninn …
Þrjár í níu. Kvöldsólin litar dalinn og mikill sigur unninn eftir að hafa reynt allar helstu flugur í Hnausastreng. Ljósmynd/Aðsend

Fallega græn fluga, ólík öllum öðrum, ekta síðsumars/haustfluga. Fjórar í níu og flugan var komin undir. Það sást undir iljar veiðimannsins þar sem hann hljóp upp fyrir heitasta tökustaðinn í Hnausa. Eitt kast og ekkert gerðist. Annað kast og allt í keng. 82 sentímetra hrygna tók Leif eftir að hafa séð allar heimsins flugur. Veiðimanninum var svo brugðið að hann rak sig í stein og datt kylliflatur aftur á bak en svo ákveðinn var hann að halda fiskinum að ósjálfráð viðbrögðin héldu stönginni beint upp í loft svo hvergi kom slaki á svo þessi fallega hrygna náðist örugglega í land. Lærdómur þessarar sögu er einfaldur. Þetta er ekki búið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert