71 árs felldi tarf á 170 metrum

Þetta er sjötta hreindýr Maríu og hún ætlar að sækja …
Þetta er sjötta hreindýr Maríu og hún ætlar að sækja um dýr á næsta ári. Ljósmynd/Einar Axelsson

Þær eru ekki margar konurnar sem halda upp á 71 árs afmælisdaginn með tveggja daga hreindýraveiði fyrir austan. En það gerði hún María Gunnarsdóttir. Á afmælisdaginn var leitað um öll Vestur-Öræfin en ekkert dýr fannst þrátt fyrir fimmtán klukkustunda leit.

Í gær var svo farið upp aftur klukkan sjö um morguninn og eftir hádegi fundu þau María og fylgdarlið hóp dýra. Tarfurinn var svo í færi klukkan fjögur og María felldi hann með .308 kalíbera á ríflega 170 metra færi.

„Þetta var ótrúlega gaman, hossast um í þessum aðstæðum í tvo daga og finna svo loksins hópinn og allt gekk upp. Ég hálsskaut tarfinn en er ekki búin að fá vigt á hann enn. Einar Axelsson leiðsögumaðurinn minn giskaði á áttatíu til hundrað kíló,“ sagði María í samtali við Sporðaköst.

María með afmælistarfinn sem hún skaut á svæði tvö í …
María með afmælistarfinn sem hún skaut á svæði tvö í gær. Ljósmynd/Einar Axelsson

María var ein af fyrstu konunum til að stunda hreindýraveiði. Nú var hún að fella sitt sjötta dýr og í síðustu fjögur skiptin hefur Einar Axelsson verið leiðsögumaður hennar. „Það er fínt að vera núna orðin ein af þeim elstu,“ hló María.

Sambýlismaður hennar er Gunnar Bender ritstjóri Sportveiðiblaðsins og veiðiskríbent. Hann fékk ekki að fara með síðustu metrana. „Þegar var komið að okkur og við nálguðumst hópinn var það bara ég og leiðsögumaður sem máttum fara síðasta spölinn.“

María er alvön skytta og ólst upp við rjúpnaveiðar á Holtavörðuheiði með pabba sínum. Fornihvammur var hennar staður og eins og hún segir sjálf: „Holtavörðuheiðin var mínar æskustöðvar í skotveiðinni.“ Hún er ekki síður liðtæk í stangveiðinni og var að skella sér í veiði seinnipartinn eftir að hafa rætt við Sporðaköst um hreindýraveiðina.

Ekið með dýrið til byggða. María og Einar leiðsögumaður.
Ekið með dýrið til byggða. María og Einar leiðsögumaður. Ljósmynd/Aðsend

Sporðaköst óska Maríu til hamingju með afmælið og tarfinn vígalega, sem hún skaut á svæði tvö. Hún ætlar að sækja um dýr á næsta ár. Harðákveðin í því.

Uppfært

Það er búið að vigta tarfinn og var níutíu kíló.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert