Álit sérfræðinga - Besta haustflugan?

Haraldur Eiríksson með stórlax úr Höfðafljóti í Laxá í Dölum. …
Haraldur Eiríksson með stórlax úr Höfðafljóti í Laxá í Dölum. Þetta eru fiskarnir sem flestir veiðimenn eru að eltast við. Hér eru ráðleggingar um fluguval. Skúli Kristinsson

Haustveiðin er nú á fullu í laxveiðiánum. Aðstæður eru orðnar mikið breyttar frá sumarveiðinni. Meiri veðrabreytingar, laxinn orðinn leginn og búinn að sjá flestar flugur sem hnýttar hafa verið. Hins vegar eru menn oft að gera góða veiði á þessum tíma, þegar hængurinn verður árásargjarnari og fjör færist í leikinn undir yfirborði.

Við leituðum til nokkurra valinkunna veiðimanna og báðum um ráð og þá aðallega að upplýsa hvaða fluga það væri sem þeir teldu besta í haustveiðina í laxinum.

Sturla Birgisson velur Munro Killer í stærðum 12 til 16. Stulli vill svartan krók. „Ekkert glimmer dót, bara orginal. Það er þessir klassísku haust litir ásamt bláu skeggi. Algjör killer,“ sagði Stulli sem rekur Laxá á Ásum.

Þetta er flugan Autumn Hooker.
Þetta er flugan Autumn Hooker. Ljósmynd/Nils Folmer

Í sama streng tók Gísli Ásgeirsson sem annast Selá og Hofsá og fleiri ár. Hans val er þó gullkrókur og létt dressuð útgáfa. Hann bætti reyndar við að því minna dressuð þeim mun betra. Þegar hann var spurður af hverju þessi fluga, var svarið; „Reynsla, reynsla og aftur reynsla.“

Enn einn sem nefndi þessa flugu til sögunnar er Haraldur Eiríksson Kjósarforingi. Hann segir reyndar Munro Killer eða sambærileg. Hann vill einungis svarta króka eða nikkel. „Laxinn forðast gjarnan silfraða glampandi öngla síðsumars. Jarðarlitir og dekkri litir allsráðandi á þessum tíma,“ sagði Haraldur.

En fleiri flugur voru nefndar til sögunnar. Nils Folmer Jörgensen valdi eina af sínum flugum. Autumn Hooker. Það er litrík og öflug haustfluga. Þegar hann er spurður af hverju Autumn Hooker, þá svarar hann á svipaðan hátt og Gísli hér að ofan. „Ég hef bara margoft séð þetta. Ég staddur í Vatnsdalsá núna og á sama tíma í fyrra var fólk í hollinu sem ekki hafði fengið fisk. Ég lét það fá Autumn Hooker númer tólf og fjórtán og Bingó. Þetta fólk veiddi á fluguna og það var eins og engin önnur fluga væri að virka,“ sagði Nils. Hann tekur þó fram að afar mikilvægt sé að hnýta hana úr hrosshári og þannig sé hún mun öflugri en ef notaður er refur.

Árni Baldursson sá reyndi veiðimaður var fljótur að svara. Hans val er Willy Gun-tvíkrækja númer fjórtán.

Harpa Hlín Þórðardóttir veiðikona velur rauðan Frances, kvarttommu kón. Hún segir hann virka við allar aðstæður, á reki og strippi. Annars velur hún lítinn Sunray með keilu.

Við eigum eftir að birta fleiri svör um haustfluguna. En hér eru hugmyndir að ofan til að bæta í fluguboxið ef veiði er fram undan.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert