Fyrsti hundraðkallinn úr Vatnsdalsá

Hrygnan væna. Hér er málband lagt við fiskinn til sönnunar. …
Hrygnan væna. Hér er málband lagt við fiskinn til sönnunar. Þetta er ráðlegging sem Nils hefur gefið sjálfur þegar fiski er sleppt og hann mældur. Reyna eins og hægt er að halda honum í vatni. Ljósmynd/Nils Folmer

Fyrsti hundraðkallinn í sumar í Vatnsdalsá veiddist í morgun. Það var enginn annar en Nils Folmer Jörgensen, danski stórlaxahvíslarinn, sem setti í og landaði þessari líka stórvöxnu hrygnu í veiðistaðnum Kötlustaðahyl.

Hrygnan mældist 103 sentímetrar og er stærsti lax sumarsins úr Vatnsdalsá. Laxinn tók haustfluguna Autumn Hooker sem er hönnuð af Nils sjálfum. Flugan var frekar stór eða númer sex og var hrygnan tekin á sökkenda.

„Þetta er ekki það sem ég mæli alla jafna með, en eftir frostnætur og kalda daga þarf stundum að breyta um aðferð til að fá hann til að taka,“ sagði Nils í samtali við Sporðaköst.

Hann tekur fram að flotlínuveiði sé hans aðferð en við ríkjandi aðstæður er það erfitt. Þetta er annar stórlaxinn sem hann veiðir í þessu holli í Vatnsdalsá en hann landaði 97 sentímetra hæng fyrr í túrnum. Sá hængur mældist 52 sentímetrar í ummál.

Þetta er flugan sem hrygnan tók. Autumn Hooker númer sex. …
Þetta er flugan sem hrygnan tók. Autumn Hooker númer sex. Fyrsti hundraðkallinn sem landast í Vatnsdalsá tók þessa flugu. Nils heldur á henni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var ekki langur slagur. Ætli þetta hafi ekki tekið hátt í tuttugu mínútur. Hún stökk aldrei en þumbaðist og þetta var mikið reiptog,“ sagði Nils. Hann er einn af þessum mönnum sem njóta ótrúlegrar stórlaxaheppni. 

Þetta er annar hundraðkallinn sem Nils landar í sumar. Hinn var tekinn í Nesi í Laxá í Aðaldal 21. júlí og mældist hann 102 sentímetrar og tók fluguna Glósóla númer átta.

Fyrir áhugasama má geta þess að Nils ætlar að birta myndbönd af viðureigninni á facebooksíðu sinni í kvöld.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert