Laxveiðin stökkbreyst á fjórum áratugum

Páll Magnússon með fyrsta lax sumarsins 2011 úr Blöndu, 12 …
Páll Magnússon með fyrsta lax sumarsins 2011 úr Blöndu, 12 punda hrygnu. Páll sagði í sínum hugleiðingum á fundinum að veiða/sleppa snerist meira um afkomu veiðileyfasala en viðkomu laxastofna. Ljósmynd/Höskuldur B. Erlingsson

Páll Magnússon þingmaður var einn frummælenda á fundinum, hvað er að gerast í laxveiðinni. Hann skyldi sparijakkann eftir og var beðinn um að koma í veiðijakkanum og tala sem áhugamaður um stangaveiði. Hér á eftir fer hans framsaga.

„Fundarstjóri - og fundarmenn nær og fjær.

Mig minnir að ég hafi verið kynntur í fundarboði sem almennur áhugamaður um laxveiði - og það má til sanns vegar færa - þótt ég gæti talið upp marga sem örugglega væru verðugri fulltrúar þess góða hóps en ég er.

En ég er búinn að verða viðloðandi þetta sport langleiðina í 40 ár. Mikið hér áður fyrr - minna hin síðari árin. Og það eru væntanlega ekki nýjar fréttir fyrir neinn sem er að fylgjast með þessum fundi að á þessum fjórum áratugum hefur laxveiðin á Íslandi ekki bara stigbreyst heldur stökkbreyst.

Jafnvel veiðimennirnir sjálfir hafa tekið miklum breytingum!

Ég hef kynnst og veitt með mörgum af nafntoguðustu veiðimönnum landsins á þessum langa tíma og það má kannski í grófum dráttum skipta þeim í þrjá hópa:

Á öðrum endanum eru kappveiðimennirnir:  þeir sem voru ekkert að pæla í blómunum á bakkanum, fuglum himinsins, umhverfinu, félagsskapnum eða yfirleitt nokkru öðru en því hvað lægju margir á bakkanum í lok vaktar eða veiðitúrs. Afbrigði af þessari gerð veiðimanna eru svo þeir sem var reyndar sama hvort þeir veiddu 4 eða 40 yfir daginn; bara ef enginn veiddi meira. Litu bara á þetta sem fótboltaleik: markatalan skipti ekki máli - bara vinna leikinn!

Á hinum endanum eru svo, hvað eigum við að kalla þá, fagurkerarnir, til að vera jákvæðir? Þeim er eiginlega alveg sama um allt það sem skiptir öllu máli fyrir hina. Fyrir þeim er flugulína yfir straumvatni einhverskonar stigi til himna - stairway to heaven. Og þegar flugan lendir á vatninu er komið á beint samband við guð. Mér er skapi næst að halda að fyrir suma í þessum hópi gæti allt eins verið krókalaus kúla á taumendanum; hápunkturinn væri að sjá fisk og hreyfa við honum; þar með væri maður orðinn einhverskonar þátttakandi í sköpunarverkinu - með guði - og þyrfti ekki að veiða neinn lax - ekki einu sinni að setja í hann!

Þriðji hópurinn er stærstur - flest okkar eru í honum - og erum þarna á milli þessarra enda - færumst jafnvel til á ásnum eftir því hvernig stendur í bólið hjá okkur.

Og ég ber mikla virðingu fyrir öllum þessum gerðum af veiðimönnum og hef veitt mér til gleði og ánægju með þeim öllum. Og ég hef horft á suma félaga mína færast úr kapp- og keppnishópnum yfir í fagurkerahópinn. Leiðin í hina áttina hefur hins vegar verið lokuð um langt skeið - og mun trúlega ekki opnast aftur.

Og veiðin sjálf hefur breyst enn meira en veiðimennirnir. Liðnir eru tímar með 12 fiska á tæpum tveimur klukkutímum í Síðukrók og undir gömlu brúnni í Víðidalsá - sá minnsti 11 pund - og 9 fiskar á rúmum klukkutíma í Kistukvísl í Laxá í Aðaldal - sá minnsti 14 pund.

Upp er runninn tími tveggja vakta á besta tíma í Kjósinni með einn fjögurra punda veiddan í Harðastreng, annan misstan á sama stað og þriðja misstan á Klingenbergbreiðu.

Og, ekki má gleyma því, fjórar vaktir í Eystri Rangá með 20 veidda, og 10-15 missta, fínir og fallegir fiskar - flestir 6-8 pund. Ég get játað það hér að ég hafði ákveðna fordóma gagnvart þessum sleppingaám – en ekki lengur.

Og þá er komið að þessu viðkvæmnismáli, fílnum í herberginu, veiða og sleppa.

Ég ætla ekki að gera mikið veður út af þessu. Veiðiréttarhafar haga þessu eins og þeir vilja og -veiðimenn taka svo sínar ákvarðanir út frá því. Þetta er einstaklingsbundið – fyrir mína parta finnst mér mikilvægt að mega hirða eins og einn smálax á vakt, eða dag, til að hafa á jólunum. Ef þeir sem eiga veiðiréttinn telja ána í svo slæmu ásigkomulagi að hún þoli það ekki finnst mér rétt að hún renni í friði – fyrir mér að minnsta kosti.

En við skulum gera þetta á réttum forsendum – og ekki lifa í einhverri sjálfsblekkingu og meðvirkni. Viðurkennum bara að þetta hefur miklu meira að gera með afkomu veiðileyfasala en viðkomu laxastofna. Og það er ekkert ómerkilegt við það.

Fjöldi fólks á afkomu sína undir laxveiði. Landeigendur, leigutakar, leiðsögumenn, starfsfólk í veiðihúsum, eigendur og starfsfólk veiðiverslana – og svona mætti áfram telja. Þetta eru allt mikilvægir hagsmunir og ekkert óeðlilegt að tillit sé tekið til þeirra þegar fyrirkomulag veiða er ákveðið.

En við skulum ekki lifa í þeirri sjálfsblekkingu að veiða/sleppa fyrirkomulagið sé að bjarga laxastofnum sem eiga undir högg að sækja; það liggja einfaldlega ekki fyrir neinar vísbendingar um það og reynslan hér á Íslandi gefur ekki til kynna að svo sé.

Að síðustu þessu tengt: Ef veiðileyfasalarnir ætla hins vegar að fara að ráða því hvaða flugustærð ég nota - eða þyngd á sökkendum - ja, þá er ég hættur í hljómsveitinni!

Annars nenni ég síst af öllu að tala um laxveiðar sem eitthvað vandamál. Ég er bara áhugamaður um veiði og ætla að hafa gaman af henni; þegar ég veiði lítið, sem er oft, þegar ég veiði mikið, sem er örsjaldan, þegar ég sleppi og þegar ég hirði.

Höfum gaman að þessu!

Takk fyrir mig.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert