Golf og laxveiði fer ekki vel saman

Davíð Másson með fallegan stórlax úr Nesi í Aðaldal. Þetta …
Davíð Másson með fallegan stórlax úr Nesi í Aðaldal. Þetta veiðistaðurinn Skerflúð. Þessi var háfaður og hann var hægt að mæla. Ljósmynd/Aðsend

Það er ekki víst að öllum hugnist þessi fyrirsögn. En hér er dæmisaga sem vert er að hafa í huga. Davíð Másson, einn af leigutökum Þverár/Kjarrár svo einhverjar séu nefndar, var að veiða í Miðfjarðará undir lok veiðitíma. Hann var með félaga sínum Jóni Mýrdal og með þeim var leiðsögumaðurinn Helgi Guðbrandsson.

Þeir áttu svæðið sem kallast efri Austurá og voru að veiða rétt ofan við Aðalból.

Davíð Másson skipti um flugu og setti undir Dimmblá númer fjórtán. Hann veiðir oft í Laxá í Aðaldal og kynntist þessari flugu þar. Nema hvað að fljótlega reisir hann fisk. Þeir félagar sáu að þetta var stór fiskur. Virkilega stór fiskur. Þeir ákváðu að gefa sér góðan tíma þarna á þessum ómerkta grasbakka neðan við veiðistaðinn Kotála. „Ég var búinn að reisa þennan fisk fimm sinnum. Þetta var alveg taugatrekkjandi og svo loksins negldi hann fluguna. Þetta var svakalegur fiskur,“ sagði Davíð Másson í samtali við Sporðaköst.

Þeir toguðust á í langan tíma og endar með því að Davíð náði þessum fiski í háffæri. Þá kom í ljós að háfurinn sem leiðsögumaðurinn var með gat ekki innbyrt þennan tröllvaxna lax. Úr varð að Jón Mýrdal hljóp upp í bíl að ná í stærri háf sem Davíð var með í skottinu. Háfurinn var fastur og það var ekki fyrr en Jón reif í hann af talsverðum krafti að golfsettið, sem var líka í skottinu, gaf háfinn eftir. Háfurinn hafði flækst í settinu og þurfti nokkra krafta til að losa hann, enda Jón mikið að flýta sér.

Hér er svo 102 sentímetra hængurinn sem veiddist í klakveiði …
Hér er svo 102 sentímetra hængurinn sem veiddist í klakveiði á sama stað og Davíð missti sinn. Ummálið var 56 sentimetrar og í kjaftinum var far eftir tvíkrækju. Ljósmynd/Aðsend

Um þetta leyti var Davíð kominn með laxinn í kjörstöðu til að háfa fiskinn. Hann var háfaður og Davíð fór niður á hnén til að losa úr honum og gera klárt fyrir myndatöku. Skyndilega tók fiskurinn viðbragð og rauk af stað og út úr háfnum. Það slitnaði og laxinn var farinn með fluguna.

„Við vissum ekki hvað var í gangi. En svo skoðuðum við háfinn og hann var rifinn. Sennilega verið fastur í helvítis pútternum og á honum var stórt gat. Vá hvað þetta var svekkjandi. Áttum bara eftir að mæla hann og mynda,“ sagði Davíð Másson um þennan hluta viðureignarinnar. Öllum viðstöddum bar saman um að þessi fiskur hefði staðið hundrað sentímetra.

Svo gerðist það hins vegar viku síðar í klakveiði að 102 sentímetra fiskur veiddist á þessum sama stað. Hann mældist 56 sentímetrar í ummál. Hann var með far eftir tvíkrækju og telja verður býsna líklegt að um sama fiskinn sé að ræða.

Boðskapur sögunnar er einfaldur. Golf og laxveiði fara illa saman.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert