„Margbætti metið mitt í sjóbirtingi“

Með 82 sentímetra birting. Þetta var sá eini sem Aron …
Með 82 sentímetra birting. Þetta var sá eini sem Aron tók á púpu. Allir hinir komu á straumflugu. Ljósmynd/Aron Jarl

Veiðimaður vikunnar að þessu sinni er Aron Jarl Hillers. Hann ásamt nokkrum félögum var að koma úr veiðitörn, þar sem þeir byrjuðu í Laxá í Kjós og héldu svo austur í Vatnamót. Skemmst er frá því að segja að þeir félagar gerðu magnaða veiði. 

„Ég margbætti metið mitt í sjóbirtingi. Áður en við fórum í Vatnamótin hafði ég veitt stærst 75 sentímetra birting. Ég bætti það aftur og aftur í Vatnamótunum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem þarna en það var ótrúlega mikið af fiski undir, þegar þú fannst hann. Við þurftum mikið að leita og veiðistaðir voru að koma og fara svo mikið var sandurinn á hreyfingu.“

Jóhann Freyr Guðmundsson með 79 sentímetra hæng. Afar þykkur og …
Jóhann Freyr Guðmundsson með 79 sentímetra hæng. Afar þykkur og flottur fiskur úr Vatnamótunum. Ljósmynd/Aron Jarl

Aron telur að lykillinn að þessari góðu veiði hafi verið að þeir voru mjög duglegir. Leituðu stöðugt og vítt og breitt og það hafi gefið góða raun. „Við fengum níu birtinga sem voru yfir áttatíu sentímetrar, og fullt af fiskum sem voru sjötíu og yfir. Ég hef ekki lent áður í svona magnveiði í sjóbirtingi en ég hef verið að setja í svona stóra fiska í Varmá í Hveragerði þar sem ég veiði mikið. En Vatnamótin er allt annar leikur en Varmáin. Þetta er svo rosaleg vinna og ég er bara stífur í bakinu eftir þessa daga. Bara hreinlega búinn í skrokknum eftir þetta. Það liggur við að maður þurfi að fara í sjúkraþjálfun eða til kírópraktors eftir þetta,“ hlær Aron.

Hrafn H. Hauksson með 80 plús fisk. Þeir félagar lönduðu …
Hrafn H. Hauksson með 80 plús fisk. Þeir félagar lönduðu samtals níu fiskum í þeim stærðarflokki. Ljósmynd/Aron Jarl

Honum var samt ekki alltaf hlátur í huga í ferðinni. „Ég lenti í sandbleytu og var sokkinn upp í hné og gat mig engan veginn hreyft. Ég strekkti á veiðijakkaerminni og mokaði og mokaði. Það tók mig einhverjar tíu mínútur að losna og ég var aðeins hvekktur eftir þetta. Félagi minn ætlaði að koma og hjálpa mér en ég bað hann að bíða því annars myndi hann sökkva líka. Hann fylgdist með mér úr smá fjarlægð. Það er náttúrulega alveg bannað að vera einn þarna. Það er bara galið og þetta geta verið lífshættulegar aðstæður.“

Sjóbirtingur sem veiddist í upphitun í Kjósinni. Agnarsmá púpa situr …
Sjóbirtingur sem veiddist í upphitun í Kjósinni. Agnarsmá púpa situr fremst í trjónunni. Ljósmynd/Aron Jarl

Varstu hræddur?

„Nei kannski ekki hræddur en þegar völdin eru tekin af manni þá stendur manni ekki alveg á sama. Það kemur svona augnablik þar sem maður hugsar. Hvað á ég að gera? Ég togaði svo fast að það kom einhver smellur í mjöðmina á mér, þess vegna ákvað ég bara að moka og moka og náði svo að jugga fótunum til. Þetta er bara eins og vera fastur í steypu. Aðal þrýstingurinn er á ökklann og ristina og maður er bara steyptur niður.“

Samtals lönduðu þeir félagar 109 fiskum á fimm stangir á tveimur dögum. Sjálfur var Aron Jarl með þriðjung af þeim afla. „Lykillinn er að leita og leita og leita meira. Svo þegar maður finnur fiskinn þá þarf að vinna í því svæði á meðan það er í boði. Því allt í einu er svo sá áll horfinn og það er þannig að það er yfirleitt mun meira af fiski á staðnum en maður heldur. Við tókum þetta nánast eingöngu á straumflugur. Sterkastar voru Black Ghost og Dýrbítur stærðir sex til tíu óþyngdar, sem efri fluga. Þær voru mjög skæðar. Sem neðri flugu vorum við að nota Black Ghost Sonker og Slayer afbrigði hannað af Auke og Game Changer.“

Hér er Aron með fallega bleikju af Arnarvatnsheiði.
Hér er Aron með fallega bleikju af Arnarvatnsheiði. Ljósmynd/Aron Jarl

Já, voru þið að nota straumflugur sem dropper?

„Já eina þunga og eina léttari sem dinglaði þá ofar. Veiddum með sökkenda og oftar tók hann efri fluguna. Við vorum að fá hann á dauðareki og með því að strippa þvert og þegar við fundum fiskinn þá vorum við oft að setja í marga á sama blettinum. Við sáum að stóri hrygningarfiskurinn var að halda sig í torfum og svo var geldfiskurinn svolítið sér en samt oft margir saman.“

Aron segir að hollið á undan þeim hafi verið með einhverja sextíu til sjötíu fiska og heildarveiðin er komin í fimm hundruð birtinga frá opnun sem var 1. apríl.

Í þessum hópi voru Hrafn H. Hauksson, Jóhann Freyr Guðmundsson, Ingólfur Örn Björgvinsson, Benedikt Vagn Gunnarsson og Aron Jarl.

Veitt andstreymis á Arnarvatnsheiði að sunnanverðu.
Veitt andstreymis á Arnarvatnsheiði að sunnanverðu. Ljósmynd/Aron Jarl

„Stærstu birtingarnir mínir voru tveir 75 sentímetra úr Varmá. Ég byrjaði á að slá það með 78 sentímetra fisk og fékk 79, 81, 82, 85 og þetta var bara æðislegt.“

Áin sem Aron Jarl stundar fyrst og fremst í sjóbirtingi á haustin, er eins og fram hefur komið Varmá í Hveragerði. „Ég þekki það svæði orðið mjög vel og það jafnast ekkert á við það að setja í sjötíu til áttatíu sentímetra fisk á litla púpu og maður þarf að elta hann langar leiðir og það er mikið af grjóti og svona viðureign er bara alltaf mjög tvísýn. Þú ert að missa alveg helming af þessum fiskum í Varmánni. En við vorum ekki að missa marga í Vatnamótunum. Þá ertu með tvíhendu, stærri króka og öflugri græjur.“

Raunar hafði þessi sami hópur hafið ferð sína í Kjósinni eins og fyrr hefur komið fram. Þar lönduðu þeir félagar 23 sjóbirtingum svona í upphitun fyrir Vatnamótin og mættu því sjóðheitir þangað.

Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með Aroni veiða geta skoðað Instagram hjá honum sem heitir arondrifter.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert