Fær bólusetta Breta í bunkum í Kjósina

Breskur veiðimaður með fallegan lax úr Laxá í Kjós. Gylfi …
Breskur veiðimaður með fallegan lax úr Laxá í Kjós. Gylfi Gautur Pétursson og Haraldur Eiríksson standa hjá. Haraldur Eiríksson

Það er orðið stutt í að fregnir berist af fyrstu löxum vorsins. Oftar en ekki síðustu ár hafa þær fréttir borist úr Laxá í Kjós. Algengt er að fyrstu laxarnir sjáist neðan við Kvíslarfoss eða Laxfoss. Haraldur Eiríksson, nýr leigutaki í Kjósinni, er líka að leggja lokahönd á allan frágang og endurbætur á veiðihúsi.

„Ég hef fína tilfinningu fyrir sumrinu. Bæði hvað varðar laxinn og sérstaklega sjóbirtinginn. Já ég er bara brattur,“ svarar Halli spurður um hvernig honum lítist á sumarið.

„Opnunardagurinn hjá okkur verður 15. júní. Áin hefur að geyma snemmgenginn stofn og hefur oft verið opnuð fyrr. Það þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en fjögur ár, þegar við sáum sjö stórlaxa í Laxfossi 8. maí. Vanalega er hann að mæta í kringum tuttugasta maí.“

En hvað ræður því að þú velur 15. maí núna?

„Mér finnst af minni reynslu hér við ána að það sé ákjósanleg dagasetning. Ef við opnum fyrr þá veiðast einhverjir laxar í byrjun en svo kemur gjarnan gat. Með því að seinka þessu aðeins þá ertu öruggur um að það eru göngur á hverju flóði og það á að vera stígandi í veiðinni. Þú vilt vakna á morgnana og vera þess fullviss að það kom nýr fiskur inn á flóðinu.“

Laxinn mætir oft um 20. maí í Laxá í Kjós …
Laxinn mætir oft um 20. maí í Laxá í Kjós en veiðin hefst ekki fyrr en 15. júní. Morgunblaðið/Einar Falur

Er ekki komin stemmning í þig að vera mættur sem kóngur í þínu ríki?

„Jú, það er bara mjög skemmtilegt. Ég ætla að gera nokkrar breytingar og þar má nefna að nú má aftur veiða Þórufossinn og Þrengslin. Þetta efsta svæði hefur nú verið friðað í ein fimmtán ár og upphaflega var það gert til að sporna við of mikilli veiði á maðk á svæðinu. Nú hafa veiðireglur breyst svo mikið að ég tel ekki lengur þörf á að friða þetta svæði sérstaklega,“ segir Halli. Það er ljóst að margir unnendur Kjósarinnar munu gleðjast yfir þessu, enda fegurð svæðisins mikil.

Halli er klár á því að það verði töluvert af tveggja ára laxi í ár. Hann telur að tengingin sem ávallt hefur verið vitnað til um að gott smálaxaár sé ávísun á mikið af stórlaxi næsta ár, sé að minnka. „Svo er líka bara kominn tími á það. Ég held líka að við séum að fara að sjá risastórt ár í sjóbirtingi. Við fengum svo mildan vetur og ef ég horfi til aðstæðna í Kjósinni þá er mikið af fossum og flúðum neðst í henni. Þegar eru leysingar og læti í veðri með miklum flóðum þá höfum við séð meiri afföll í birtingnum. Núna í vetur fór ég upp í Káranesfljót 25. febrúar og sá þar uppítökur frá sjóbirtingi í sex stiga lofthita. Áin hefur ekki rutt sig neitt í vetur og ég held að hún sé að fara að skila sínum fiski þægilega til sjávar. Þessir birtingar verða svo gamlir ef þeir fá tækifæri til. Sonur minn fékk átján punda birting í Álabökkum fyrir þremur árum. Sá fiskur var sextán ára gamall og sonur minn tíu ára.“

Kvíslafoss í Laxá í Kjós. Þarna sjást oft fyrstu laxarnir …
Kvíslafoss í Laxá í Kjós. Þarna sjást oft fyrstu laxarnir og það er ekki langt í þá. Morgunblaðið/Einar Falur

Vorveiðin í Kjósinni er búin að skila 260 fiskum og segist Halli samt hafa á tilfinningunni að töluvert af fiskinum hafi gengið snemma niður sökum hlýinda.

Margir veiðimenn hafa áhyggjur af vatnsbúskap í sumar þar sem afar lítið snjóaði á landinu í vetur. Það var í raun og veru bara umtalsvert magn af snjó á Norðausturlandi. „Það sem skiptir okkur mestu máli hér er grunnvatnsstaðan og hún er ekki góð eins og stendur, en það er fljótt að breytast. Við búum ekki hér við einhvern risastóran vatnsforða, en þegar rignir þá breytast hlutirnir mjög hratt. Það standa núna upp úr grjót í Meðalfellsvatni sem maður vill ekki sjá en eins og ég segi þá er þetta fljótt að breytast. Ég er með dæmigerða dragá í höndunum og ástandið í snjóalögum núna er á pari við það sem var í fyrra. En ég skal viðurkenna að þetta minnir óþægilega á 2019, þar sem hann lá í norðanátt í fjóra mánuði. En í fyrra fengum við rigningu eins og eftir pöntun. Vonandi verður það aftur þannig í sumar.“

Haraldur Eiríksson með fallegan smálax úr Golfstraumi í Bugðu.
Haraldur Eiríksson með fallegan smálax úr Golfstraumi í Bugðu. Ljósmynd/ES

Er Covid að leika stórt hlutverk áfram?

„Ekki hjá mér. Þeir útlendingar sem eru að koma í Kjósina í sumar eru allt Bretar og ég var uppseldur í nóvember, þannig að þetta er ekki að hafa áhrif á stöðuna hér. Þetta fólk er allt fullbólusett. Bretar hafa verið mjög duglegir í bólusetningum og þeir sem hingað eru að koma eru mikið fullorðið fólk og það er allt bólusett. Við höfum ekki verið að fá afbókanir og ég finn alveg fyrir því að markaðurinn lifnaði töluvert við eftir tilkynninguna sem kom um að Ísland flokkaðist sem grænt land. Hvað sem verður svo síðar.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert