Villti laxinn 17,3% undir meðallagi 2020

Jóhann Hafnfjörð Rafnsson á Skipstjórabreiðu í Víðidalsá. Þessi mældist 82 …
Jóhann Hafnfjörð Rafnsson á Skipstjórabreiðu í Víðidalsá. Þessi mældist 82 sentimetrar. Í opnun í fyrra. Stangveiði á villtum laxi var 17,3% undir meðatali áranna 1974 til 2019, í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Hafrannsóknastofnun hefur sent frá sér uppgjör á stangveiði á Íslandi fyrir sumarið 2020. Þar kemur í ljós að laxveiði á stöng var 8,4% yfir meðalveiði áranna 1974 til 2019. Hins vegar snýst dæmið við þegar einungis er horft á náttúrulegan lax. Veiðin var 17,3% undir meðalveiði sömu ára. Árið 1978 er metveiði þegar horft er til fjölda náttúrulegra laxa og fór þá yfir fimmtíu þúsund. Minnst var hún árið 2019 eða 9.404 laxar. Athygli vekur að 5.700 laxar veiddust í net á síðasta ári og sjö hnúðlaxar voru skráðir. Tveir á stöng og fimm í net.

Skýrslan er yfirgripsmikil og tekur til allra fiskistofna. Hana má finna í heild sinn á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar, hafogvatn.is. Skýrsluna unnu Guðmunda Þórðardóttir og Guðni Guðbergsson. Hér að neðan má lesa ágrip skýrslunnar í heild sinni.

„Sumarið 2020 var stangveiði á laxi í ám á Íslandi alls 45.124 laxar, af þeim var 22.327 (49,5%) sleppt og var heildarfjöldi landaðra stangveiddra laxa (afli) 22.797 (50,5%). Laxveiði á stöng var 3.510 löxum eða 8,4% yfir meðalveiði áranna 1974 til 2019 (41.614) og 35,2% aukning frá árinu 2019 (29.129). Af stangveiddum löxum voru 36.022 laxar með eins árs sjávardvöl (smálaxar) (79,8%) og 9.102 (20,2%) laxar með tveggja ára sjávardvöl eða lengri (stórlaxar).

Alls var þyngd landaðra laxa (afli) í stangveiði 63.548 kg. Afli í stangveiðinni skiptist þannig að 20.426 (91,5%) laxar voru smálaxar, alls 51.867 kg og 2.371 stórlaxar (8,5%) sem voru 11.678 kg.  Af þeim löxum sem sleppt var aftur voru 15.596 smálaxar og 6.731 stórlaxar. 

Sumarið 2020 voru skráðir í stangveiði alls 30.292 laxar af villtum (náttúrulegum) uppruna. Heildarveiðin var 17,3% lægri en meðalveiði áranna 1974‐2019 (36.615 laxar). Frá árinu 1974 hefur fjöldi í afla villtra laxa aðeins einu sinni farið yfir 50.000 laxa en það var árið 1978 og minnsti afli villtra laxa var árið 2019 en þá var fjöldinn 9.404 laxar. Heildarveiði laxa í stangveiði var mest árið 2008 og var 84.124 laxar. Þar sem gönguseiðum var sleppt í ár til hafbeitar  veiddust 14.832 laxar sem er um 32,9% af heildar stangveiðinni.  

Alls veiddust 5.752 laxar í netsumarið 2020 og var heildaraflinn 15.727 kg. Eins og undanfarin ár var netaveiði mest stunduð á Suðurlandi en þar veiddust 5.625 laxar í net og var aflinn 15.388 kg. Það var lítið um netaveiði í öðrum landshlutum, en netaveiði er að mestu bundin við stóru jökulárnar. Veiði í net hefur farið minnkandi frá því um miðjan níunda áratuginn og hefur verið undir meðaltali síðan þá að tveimur árum undanskildum en veiðin í net árið 2020 var 554 fiskum fleiri en árið 2019.  

Í stangveiði og netaveiði var heildarafli landaðra laxa samanlagt 50.876 laxar og vógu alls 79.275 kg, af þeim voru 25.785 smálaxar og 4.191 stórlax. Þyngd smálaxa var 62.567 kg og þyngd stórlaxa 16.704 kg.

Alls voru skráðir 39.755 urriðar/sjóbirtingar í stangveiði sumarið 2020 en hlutfall urriða sem var sleppt var 33,2%. Afli urriða var 26.537 fiskar (66,8%) sem vógu samtals 33.528 kg. Alls voru skráðar veiddar 30.400 bleikjur/sjóbleikjur í stangveiði en hlutfall bleikju sem var sleppt var 18,4 % og voru fjöldi bleikja í afla 24.814 (81,6%). Skráðir hnúðlaxar voru sjö árið 2020, tveir veiddir á stöng og fimm í net.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert