Stórleikarinn í stuði í Eystri-Rangá

Þorsteinn Bachmann með 93 sentímetra stórlax úr Eystri-Rangá sem hann …
Þorsteinn Bachmann með 93 sentímetra stórlax úr Eystri-Rangá sem hann landaði í morgun. Viðureignin var söguleg. Tók 115 mínútur og hlaup upp á tæplega kílómetra. Ljósmynd/RMS

Það er skammt stórra högga á milli hjá stórleikaranum Þorsteini Bachmann í veiðinni. Hann lauk nýverið tökum í Laxá í Aðaldal, þar sem kvikmyndin Allra síðasta veiðiferðin var tekin upp. Nú er hann staddur í Eystri-Rangá og setur í hvern stórlaxinn á fætur öðrum.

Með Þorsteini er leiðsögumaðurinn Reynir M. Sigmundsson sem lesendur Sporðakasta þekkja vel, enda úrvalsleiðsögumaður og þekkir Eystri eins og puttana á sér.

Þeir félagar hófu veiðar í gær og þrátt fyrir erfiðar aðstæður lönduðu þeir þremur stórglæsilegum löxum. Þetta voru átök og hlaup og sviti, eins og Reynir lýsti því. Dagurinn í dag byrjaði með sumarblíðu og menn voru með hæfilegar væntingar.

Reynir Sigmundsson með Þorsteini og enn einn stórlaxinn. Hér er …
Reynir Sigmundsson með Þorsteini og enn einn stórlaxinn. Hér er gleðin við völd. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er búið að vera alveg meiriháttar. Erfið skilyrði en við höfum landað fimm fiskum frá því í gærmorgun og þetta eru allt stórlaxar. Ég slóst við einn í 115 mínútur. Það var bara eins og heill fótboltaleikur með framlengingu og vítaspyrnukeppni,“ hló Þorsteinn þegar við heyrðum í honum síðdegis þar sem hann var við veiðar í Eystri-Rangá. Hann er hér að vísa til viðureignar við 93 sentímetra sterkan og þykkan vorfisk. Þessi fiskur tók neðarlega í Tunguvaði og er þetta fyrsti fiskurinn sem veiðist á svæði níu þetta veiðitímabil.

„Það eru forréttindi að veiða með laxahvíslara eins og Reyni Sigmundssyni. Hann sagði við mig: „Ég vil fullkomið kast og þegar flugan dettur í strenginn þá stripparðu og þá tekur hann.“ Þetta bara gerðist nákvæmlega eins og hann sagði,“ sagði Þorsteinn í samtali við Sporðaköst.

Fyrsti laxinn í túrnum og Þorsteinn reynir ekki að leyna …
Fyrsti laxinn í túrnum og Þorsteinn reynir ekki að leyna gleði sinni. Ljósmynd/RMS

Fiskurinn tók þá félaga tæpan kílómetra niður með ánni áður en þeir lönduðu honum. Enda eins og myndin ber með sér er fiskurinn afar þykkur og flott eintak.

Eins og margir muna lék Þorsteinn Bachmann persónuna Val Aðalsteins í kvikmyndinni Síðustu veiðiferðinni. Valur var ekki að gera gott mót í veiðinni í þeirri mynd. Hins vegar er annað upp á teningnum þegar Þorsteinn er sjálfur að veiða og hann er það sem kallast „top rod“ í þessu holli og á því allan montrétt sem hann vill nýta sér.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert