Mikil umferð af laxi á ósasvæði Norðurár

Hann er á í Straumunum í morgun. Sigurður Pétursson þreytir …
Hann er á í Straumunum í morgun. Sigurður Pétursson þreytir lax. Hvítá er mikil þessa dagana og liggja skilin mjög nærri landi. Ljósmynd/SP

Miklar áhyggjur hafa verið meðal veiðimanna að sumarið í sumar yrði enn eitt lélega veiðisumarið. Hins vegar eru jákvæð teikn á lofti. Sigurður Pétursson, einn af landeigendum Strauma, sem er hluti af ósasvæði Norðurár, var að ljúka þar veiðum í hádeginu. „Það hefur verið mikil umferð af laxi þessa tvo daga sem við höfum verið að veiða. Við höfum verið að sjá hann stökkva og stundum hafa verið tveir eða þrír á lofti í einu. Átta löxum hefur verið landað og þetta er þessi dæmigerði smálax,“ sagði Sigurður í samtali við Sporðaköst í morgun.

Þá hefur verið mikil sjóbirtingsveiði á svæðinu og hafði hann ásamt veiðifélögum landað um þrjátíu birtingum og sá stærsti var níu pund.

Þorsteinn tilbúinn með háfinn fyrir viðskiptavin. Þessi fór í netið. …
Þorsteinn tilbúinn með háfinn fyrir viðskiptavin. Þessi fór í netið. Þorsteinn segir að ástandið sé ólýsanlega miklu betra en síðustu ár. Ljósmynd/ÞS

Þorsteinn Stefánsson, yfirleiðsögumaður í Norðurá sagði stöðuna nú vera allt aðra en síðustu þrjú ár. „Þetta er miklu, miklu, miklu, bara ólýsanlega miklu betra en í fyrra. Við erum búnir að bíða í þrjú ár eftir svona alvöru besta tíma sumarsins og loksins er það komið. Við höfum í síðustu þremur hollum verið að skila hátt í áttatíu löxum á þremur dögum,“ sagði Þorsteinn í samtali við Sporðaköst.

Hann upplýsti að lúsugur fiskur hefði veiðst frammi á Dal í gær og þeir væru að sjá mikið af nýjum fiski. „Síðustu ár hefur þetta byrjað að dala hjá okkur á þessum tíma en nú er myndin allt önnur og það er bara stöðug ágæt veiði. Við erum ennþá á „prime“ tíma. Við höfum ekki fengið þessi risa holl upp á vel yfir hundrað laxa, en verið stöðugt í nokkurn tíma og lítur vel út með framhaldið.“

Þorsteinn segist mæta léttur og kátur í vinnuna. Það er …
Þorsteinn segist mæta léttur og kátur í vinnuna. Það er gott vatn, töluvert af fiski og hann er að ganga. Ljósmynd/ÞS

Þorsteinn er að eina stöng í leiðsögn núna og er sá veiðimaður kominn með tíu laxa eftir tveggja daga veiði. Í hollinu á undan var hann með tvær stangir og þær lönduðu samtals nítján fiskum og misstu annað eins. Hollið þar á undan var hann með eina stöng og skilaði hún fjórtán löxum á þremur dögum.

„Eftir það sem hefur verið að gerast, sérstaklega síðustu tvö ár, þá er maður bara léttur og kátur í vinnunni. Þetta er bara loksins orðið eins og þetta á að vera,“ sagði Þorsteinn.

Svipaða sögu sögðu veiðimenn sem voru í Gljúfurá fyrir helgi. Skyndilega fóru þeir að sjá fiska vera á stöðum sem höfðu verið tómir og einnig fiska á dæmigerðum göngustöðum.

Veiðimenn sem voru að koma úr Víðidalsá og Vatnsdalsá sögðu töluvert vera af fiski í göngu í Víðidalsá en veðurskilyrði og lítið vatn hafa sett strik í reikninginn. En menn voru sammála um að staðan væri mun betri en síðustu tvö ár. 

Í Vatnadalsá hefur orðið var við mikið af laxi neðst í ánni en veðurskilyrði hafa verið afar óhagstæð. Fiskurinn veigrar sér við að ganga í gegnum Flóðið en áin oft farið í tuttugu stig í veðurblíðunni.

Sjá má á rafrænu veiðibókinni hjá Miðfjarðará að þar hefur verið stígandi í veiðinni og hafa síðustu dagar verið að skila þrettán til sextán löxum.

Það má því allavega ýta á pásu hvað varðar svartsýnina og vonandi er þetta ávísun á þokkalegt veiðisumar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert