„Búið að venja hann á þetta helvíti“

Ólafur Vigfússon með nýrunninn smálax sem hann tók á Breiðunni …
Ólafur Vigfússon með nýrunninn smálax sem hann tók á Breiðunni í Alviðru í gær. Ljósmynd/Veiðihornið

Veiðimenn í Ásgarði og Alviðru í Soginu í gær settu í tíu laxa en aðeins einum var landað. Vala Árnadóttir var að veiða í Ásgarði og setti í fimm laxa og allir misstust. Nokkru neðar og á bakkanum hinum megin, mættu Óli og María í Veiðihorninu, eftir lokun búðarinnar.

„Ég setti í fimm laxa þessa fjóra tíma sem við stöldruðum við. Þetta var magnað. Minnir mig á gamla daga,“ sagði Ólafur í samtali við Sporðaköst.

Það var fallegt við Sogið í gærkvöldi. Sett var í …
Það var fallegt við Sogið í gærkvöldi. Sett var í tíu laxa í Alviðru og Ásgarði en aðeins einum var landað. Ljósmynd/Veiðihornið

Hvað var hann að taka?

„Við veiddum í „gamla daga“ með miklum snillingum á borð við Jens Pétur Clausen, Guðjón Tómasson og Egil „málara“ Kristinsson sem allir eru fallnir frá. Egill á óborganlega setningu því þegar hann var einhvern tímann spurður að því hvað laxinn í Soginu hefði tekið svaraði hann, „Nú auðvitað Frances. Það er búið að venja hann á þetta helvíti.“

Þegar mér bauðst að kíkja í Alviðru eftir lokun í gær ákvað ég að taka með mér eina flugu – Frances.“

Óli búinn að setja í hann á Breiðunni. Þetta minnti …
Óli búinn að setja í hann á Breiðunni. Þetta minnti á gamla daga, sagði hann. Hér áður fyrr veiddu þau mikið í Bíldsfelli og víðar í Soginu. Ljósmynd/Veiðihornið

Segja má að allt vatnasvæðið sem að lokum ber nafnið Ölfusá þegar það rennur til sjávar sé að gera ágæta hluti. Stóra-Laxá er að gefa ágæta veiði. Iðan er einnig í ágætismálum, þó að alltaf sé erfitt að fá nákvæmar tölur þaðan. Sogið er að verða komið í um 180 laxa, þegar öll svæði eru talin. Horfa margir til þess að netum fækkaði í Hvítá og Ölfusá í vor. Fleiri laxar rata því á uppeldisstöðvarnar.

Óli og María náðu þessum fjórum tímum en svo er næsta vakt í Veiðihorninu en þau hafa staðið vaktina þar í samfellt 24 ár um verslunarmannahelgi. Eins og Óli orðaði það hlæjandi. Skammstöfunin ehf. í rekstri stendur einfaldlega fyrir; ekkert helvítis frí. „Allir velkomnir.“ 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert