Nokkrir af bestu göngustöðum Norðurár

Veiðijarlinn í sínu náttúrulega umhverfi á bökkum Norðurár. Jón G. …
Veiðijarlinn í sínu náttúrulega umhverfi á bökkum Norðurár. Jón G. Baldvinsson veiddi Norðurá fyrst árið 1967 og nú síðast í haust. Ný ævintýri bíða Jóns næsta ár á þessum slóðum. Ljósmynd/Eggert Þór

Bók Jóns G. Baldvinssonar um Norðurá er ferðalag niður ána og um leið afar hjálpleg veiðistaðalýsing. Við grípum hér niður í lýsingar hans á nokkrum af þekktustu veiðistöðum Norðurár, á svæðinu neðan við Laxfoss.

Bók Jóns, Norðurá, enn fegurst áa er magnað ferðalag niður Norðurá. Það er ljóst að þessi bók verður i flestum bílum og bakpokum í Borgarfirðinum næstkomandi sumur. En gefum Jóni orðið.

73 Konungsstrengur

Rétt er það, þessi staður fékk sitt nafn í sömu konungsheimsókn þótt ekki fari neinum sögum af veiðum hans hátignar Kristjáns X.

Strengurinn er mjög auðveiddur af klöppunum við vesturlandið. Bara þarf að gæta þess að fara ekki langt út því laxinn er mjög oft landmegin í strengkantinum og jafnvel inni á grunna vatninu ef mikið vatn er í ánni. Þetta er mjög góður veiðistaður þegar lax er í göngu. Undir strengnum er hvöss klapparbrún og mikið dýpi utan við sem er hluti af Gaflhyl. Laxinn kann því vel við sig þarna undir strengnum þar sem hann getur leitað skjóls í dýpinu um leið og hættu ber að höndum. Besti tökustaðurinn er efst í strengnum en lax getur legið langt niður eftir honum alveg niður á móts við Efra-Sker. Það fer þó eftir vatnshæð.

Nú vöðum við ofan við Konungsstreng, ef vatnið er ekki of mikið og komum okkur fyrir undir stóra klettinum í miðfossinum en kletturinn er stundum nefndur „Hausinn“. Ekki kann ég skil á þeirri nafngift. Austan við klettinn er laxastiginn upp úr Nikulásarkeri og þar er að sjálfsögðu bannað að veiða en Nikulásarker var besta lögn í Norðurá í gamla daga og tilheyrði Stafholtskirkju lengst af og þóttu mikil hlunnindi. Við læðumst vestur fyrir klettinn og komum þá að Klingenberg.

76 Klingenberg

Veiðistaðurinn er þröng en mjög djúp gjá að vestanverðu við Hausinn. Þangað villist alltaf mikið af laxi sem streðar við að stökkva fossinn en kemst hvergi og ílengist þá gjarnan þarna í dýpinu. Eilíf átök eru um það hvort banna eigi þarna veiði vegna hættu á að menn freistist til að húkka laxinn. Mjög skemmtilegt er að standa þarna undir fossinum með flotlínu og veiða með gárubragði því þá geta gerst þarna mikil ævintýri. Heldur er þó þreytandi að standa þarna lengi og getur suma sundlað þegar þeir horfa niður í strauminn. Staðurinn hefur gefið mikla veiði undanfarin þurrkasumur því þarna er lax meira og minna allan veiðitímann. Mjög sérstakur veiðistaður en nokkuð skemmtilegur þegar fiskurinn gefur sig þar.

75 Krosshola

Strengurinn niður úr Nikulásarkeri rennur í þessa þröngu klettaskoru í miðri ánni. Nafnið er tilkomið vegna þess að þarna veiddi enskur veiðimaður 32 punda lax á árunum fyrir seinna stríð og hét sá mæti maður Cross og þaðan kemur nafnið.

Þetta er bráðskemmtilegur veiðistaður sérstaklega þegar lax er í göngu og held ég að allur lax staldri þarna við, á leið sinni upp að fossi. Við komum okkur fyrir austan við Krossholuna en stöndum ekki of nálægt því staðurinn er mjög viðkvæmur.

Þarna fer gárubragðið sérlega vel og er hægt að búast við laxi alveg frá efsta frussi í strengnum en aðaltökustaðirnir eru þó neðar, þar sem strengurinn byrjar að deyja út og síðan þar sem tekur við fallegt brot sem oft geymir göngulaxa. Þetta er einn af mínum uppáhaldsstöðum við Laxfoss og hefur oft gefið mér fína veiði, ekki síður síðsumars svo lengi sem eitthvað af laxi er að ganga.

Við veiðum okkur alveg niður á brotið og þegar fellur fram af því þá tekur við Gaflhylur.

Kastað með tilþrifum á Eyrinni í Norðurá.
Kastað með tilþrifum á Eyrinni í Norðurá. Ljósmynd/Úr safni Röggu

74 Gaflhylur

Hylurinn er með allra dýpstu stöðum í Norðurá og greinilegt að fossinn hefur einhvern tíma í fyrndinni verið beint ofan við Gaflhylinn og grafið hann út en síðan hefur hann færst ofar í tímanna rás. Talið er að dýpið sé allt að 12 metrum.

Ekkert veiðist þó í þessu mikla dýpi heldur eru tökustaðirnir í Gaflhyl einungis þar sem bunurnar renna niður í hann. Þar staðnæmist ævinlega eitthvað af laxi og þar er best að standa vel ofan við og dingla flugum í hvítfyssinu og freistast þá stundum laxar til að glefsa í þessar druslur sem þarna sveima. Þetta er stundum dálítið þolinmæðisverk – líkt og í Klingenberg – en gefur oft árangur.

Þegar þessari tilraun er lokið þá röltum við í land að austanverðu og tyllum okkur niður á grasbalann neðan við klettinn. Fáum okkur kaffi eða aðra hressingu og tökum ofan fyrir besta og flottasta veiðistað í Norðurá sem þarna er beint fram af okkur.

72 Eyrin

Þessi staður er oftar en ekki besti veiðistaður í ánni og er því með betri veiðistöðum á Íslandi. Laxinn getur legið alla leið frá eyrarhorninu og niður á harða brot. Í botni eru klapparrásir og í þeim liggur laxinn. Í miklu vatni þarf að byrja veiðar alveg upp við land því að þar leggst laxinn oftast í flóðum. Einnig færir hann sig gjarnan upp fyrir eyrarhornið í miklu vatni. Annars er Eyrin auðlesinn veiðistaður og auðveiddur. Varast skal að vaða langt út því ef áin er í meðalvatni og glær þá er auðvelt að styggja laxinn þarna eins og annars staðar. Njótið veru ykkar þarna og prófið margar flugur áður en farið er annað. Þetta er paradísarplanið sem ég minntist á hér að framan.

71 Prófessorsstrengur

Niður með landinu fyrir neðan Eyrina er smápollur sem gefur stundum veiði en aðeins þegar flóð er í ánni. Staðurinn er nefndur eftir Guðmundi Magnússyni prófessor sem var stundum heppinn á þessum stað á árum áður.

Nú færum við okkur aftur vestur yfir ána og komum okkur fyrir ofan við Skerin.

70 Efra-Sker / Neðra-Sker

Í meðalvatni eða minna er aðaltökustaðurinn við endann á gjánni sem gengur út í ána á móts við neðsta hluta Efra-Skers. Gætið þess að vaða ekki ofan í gjána en þar hefur margur maðurinn fengið sér smábað enda erfitt að sjá hana nema hafa augun hjá sér. Ef flóð er í ánni er besta veiðivonin innan við Efra-Skerið og hefur sá staður oft bjargað veiðiferð í flóðum. Þá er staðið í landi og kastað út undir skerið og dregið að landi. Í þannig skilyrðum safnast laxinn gjarnan fyrir, innan við skerin og tekur þá oft mjög vel.

Í meðalvatni er kastað út frá skerjunum og veitt eftir kastlengd þvert út á breiðuna.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra með stórglæsilegan hæng sem hann veiddi …
Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra með stórglæsilegan hæng sem hann veiddi á Brotinu í Norðurá í opnun í sumar. Fiskurinn tók Hauginn númer Fjórtán. Þorsteinn Stefánsson leiðsögumaður aðstoðaði Guðna. Ljósmynd/Einar Falur

69 Brotið

Brotið er beint á móti Eyrinni og þegar lax er í göngu þá er það ásamt Eyrinni einn af bestu stöðum árinnar. Í miklu vatni er laxinn nær landi en í eðlilegri vatnshæð þá liggur hann mest í klapparholum og rásum sem eru miðsvæðis á Brotinu og svo neðst á brotinu sjálfu.

Best er að vaða dálítið út frá Neðra-Skerinu og veiða sig niður en færa sig jafnframt skáhalt til lands eftir hvert kast því laxinn er oft nálægt landi neðst á Brotinu og alveg sérstaklega ef mikið vatn er í ánni. Það er reyndar regla frekar en undantekning að laxinn kemur alltaf nær landi í miklu vatni og á það við um allflesta staði fyrir neðan Laxfoss.

Ef vatnið er mjög lítið þá færir laxinn sig meira yfir á Eyrina enda er Brotið frekar grunnur staður nema þessar holur sem áður voru nefndar. En í miklu vatni er þetta með bestu stöðum árinnar þegar lax er í göngu. Þarna hefur mörg hildin verið háð en skemmtilegasta sagan finnst mér vera af Sverri vini mínum Þorsteinssyni sem þarna var að veiðum ásamt félögum sínum. Hann setti í vænan lax neðarlega á Brotinu og réð illa við hann. Laxinn leitaði niður af Brotinu en Sverrir fór bara í land og hélt áfram að togast á við laxinn sem lét sig síðan gossa niður í hávaðann fyrir neðan en Sverrir stóð sem fastast þar til slitnaði úr laxinum! Félagarnir göptu af undrun og spurðu hvers vegna hann hefði ekki fylgt laxinum niður eftir. Sverrir svaraði að bragði: „Sko, þessi lax var á leiðinni niður eftir en ég á leiðinni upp eftir, svo við áttum bara ekki samleið!“. Mikið var hlegið og grín gert að letinni í karlinum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert