„Aldrei áður komist á blað í janúar“

Ólafur Tómas með 70 sentímetra urriða úr Fellsendavatni frá því …
Ólafur Tómas með 70 sentímetra urriða úr Fellsendavatni frá því í dag. Hann segist ekki fyrr hafa veitt fyrsta fisk ársins í janúar. Ljósmynd/ÁKS

„Við fórum fjórir félagar í dorgveiði og settum okkur það markmið að ná allir einum fiski í matinn. Ég hef aldrei áður komist á blað í janúar. Sá fjórði er einmitt að togast á við sinn fisk, akkúrat núna þegar þú hringir,“ sagði glaðhlakkalegur Ólafur Tómas Guðbjartsson í samtali við Sporðaköst um miðjan dag.

Þeir fóru í dorgveiði í Fellsendavatni sem er í námunda við Þórisvatn og aðeins nítján kílómetra frá hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum. Blíðskaparveður tók á móti Óla urriða eins og hann er oft kallaður enda haldið úti margs konar efni undir merkjum Dagbók urriða.

Með Óla í för voru Árni Kristinn Skúlason, og slökkviliðsmennirnir Hermann Ágúst Björnsson og Gísli Hrafn Karlsson.

Þeir voru að veiða bolta urriða og eins og Ólafur orðaði það sjálfur. „Þeir eru fallegir þessir litlu höfrungar,“ sagði hann hlæjandi.

Gísli Hrafn, Hermann Ágúst og Árni Kristinn með pattaralega urriða …
Gísli Hrafn, Hermann Ágúst og Árni Kristinn með pattaralega urriða úr Fellsendavatni. Þeir settu sér það markmið að allir myndu ná fiski og það gekk eftir. Ljósmynd/Ólafur Tómas

Dorgveiði er vinsælt sport en eins og gefur að skilja þá er veður stærsti áhrifavaldurinn. Bæði þannig að ýtrustu varkárni sé gætt varðandi ísþykkt og svo er jú hávetur og veiðimenn þurfa að fylgjast með veðurspá.

Skilyrði voru öll eins og best verður á kosið. Ísinn þykkur og snjór yfir öllu. „Já. Ísinn var hnausþykkur, sennilega í kringum metra og það var rétt svo að borinn næði í gegn. Veðrið var æðislegt. Mínus þrettán gráður, og nánast logn. Svo skemmdi ekki fyrir að sólin skein á okkur." Þeir mæla ekki með að menn fari í Fellsendavatnið nema á frekar öflugum jeppum þar sem víða hefur dregið í skafla þegar menn nálgast vatnið.

Árni Kristinn togast á við urriða. Ísinn var hnausþykkur en …
Árni Kristinn togast á við urriða. Ísinn var hnausþykkur en veðrið dásamlegt. Mínus þrettán gráður, logn og sól. Ljósmynd/Ólafur Tómas

„Við vorum að beita rækju og heltum smá lýsi á hana til að mýkja hana. Við byrjuðum allt of djúpt og færðum okkur síðar nær landi og vorum á kannski tíu metrunum þegar við fórum að verða varir við fisk. Við settum allir í fisk og Árni sleppti sínum.“

Óli var svo sem ekki með mikla trú á þessu og var í rólegheitum að kjafta við einn félagann þegar barnastöngin var hreinlega rifin úr höndunum á honum. „Þetta var einhver kálfur og hann reif sig lausan,“ sagði Ólafur. En eftir þetta þá var einbeitingin meiri og hann landaði nokkru síðar um 70 sentímetra urriða. 

Það er veiðifélagið Fish Partner sem er með Fellsendavatn á leigu og miklu magni seiða er sleppt þar á hverju ári. Það er því með góðri samvisku sem Óli ætlar að borða þennan urriða í kvöld. Dagbók þessa urriða verður ekki lengri. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert