Hafa útskrifað um 100 veiðileiðsögumenn

Útskriftarhópurinn úr veiðileiðsögn Ferðamálaskóla Íslands vorið 2022. Reynir Friðriksson er …
Útskriftarhópurinn úr veiðileiðsögn Ferðamálaskóla Íslands vorið 2022. Reynir Friðriksson er lengst til vinstri en átján manns luku náminu. Samtals er búið að útskrifa um hundrað leiðsögumenn á fjórum árum. Ljósmynd/RF

Ferðamálaskóli Íslands útskrifaði nýverið átján veiðileiðsögumenn. Þetta er fjórða árið sem námið er í boði og hafa rétt um hundrað manns útskrifast úr veiðileiðsögn á þeim tíma. Reynir Friðriksson hefur faglega umsjón með náminu en hann er reyndur leiðsögumaður til margra ára. Friðjón Sæmundsson er skólastjóri og eigandi Ferðamálaskólans.

Námið fer fram vikulega í þrjá mánuði, þar til kemur að lokahelginni þar sem farið er í veiðihús og margvísleg verkleg kennsla og þjálfun fer fram. „Það er svo merkilegt að til dæmis núna í vetur ætlaði minnihluti nemenda sér að fara í leiðsögn. Margir höfðu bara brennandi áhuga á veiði og fengu þarna samanþjappaða þekkingu á málinu frá alls konar liði sem hefur verið í kringum stangveiði í hundruð ára,“ sagði Reynir í samtali við Sporðaköst.

Verkleg kennsla fór fram í Eystri - Rangá og þar …
Verkleg kennsla fór fram í Eystri - Rangá og þar var farið yfir ólík fluguköst og fleira sem kunna þarf skil á. Ljósmynd/Jóhannes Hinriksson

Reynir segir að þótt ekki allir stefni á veiðileiðsögn, hafi tugir nemenda lagt stund á veiðileiðsögn í mismiklum mæli.

Meðal þeirra sem tóku þátt í kennslunni í vetur og vor, má nefna Sindra Hlíðar frá Fish Partner, Þröst Elliðason og Sigga Haug, svo einhverjir séu taldir til.

En á hverju byggist námið?

„Það er margþætt. Við förum í gegnum skyndihjálp, lestur á vatni, bæði hvað varðar silung og lax, gönguhegðun og lífsferilinn. Þá förum við í gegnum flugulínufræðin og allt sem viðkemur uppbyggingu flugulínu og í framhaldinu notkun þeirra. Við förum yfir fiskisjúkdóma og einkenni þeirra bæði hjá laxi og silungi. Við kennum létta vatnalíffræði og förum yfir fæðu silungs og skordýralífríkið. Þá snertum við á sögu stangveiða á Íslandi og þar leiðir Björn Theodór kennsluna,“ upplýsir Friðrik.

Kennsla í flökun er hluti af náminu. Reynir Friðriksson mundar …
Kennsla í flökun er hluti af náminu. Reynir Friðriksson mundar hér hnífinn. Ljósmynd/Unnur Gunnarsdóttir

Í verklegu lokahelginni er farið yfir flugukast og ólíkar aðferðir og útskýrt hvaða kosti og galla þær hafa við veiðar.

Hvað með samskipti leiðsögumanns og veiðimanns?

„Já. Við förum vandalega yfir samskipti leiðsögumanns og viðskiptavinar og ekki síður samskipti leiðsögumanns og verkkaupa, eða veiðileyfasala. Við förum meðal annars yfir það að leiðsögumenn verði að virða viðskiptasamböndin. Við rekjum dæmi um hvernig viðskiptavinum hefur verið stolið. Loks má nefna að við kennum meðferð og frágang afla og við vorum með flökunarkennslu um helgina. Við förum yfir hvernig best er að standa að veiði og sleppingum og myndatökur í tengslum við það. Þannig að námið er býsna alhliða þegar kemur leiðsögninni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert