Stefnir í fjórða slaka laxveiðisumarið

Skúli Kristinsson leiðsögumaður, með fallegan stórlax úr Stóru - Laxá …
Skúli Kristinsson leiðsögumaður, með fallegan stórlax úr Stóru - Laxá í Hreppum. Stóra er að gefa mun meiri veiði en í fyrra og hefur verið mjög gott vatn í henni í allt sumar. Ljósmynd/HE

Nú eru línur að skýrast í laxveiðinni. Stefnir í fjórða árið í röð þar sem veiði flokkast sem fremur dræm. Farið er að hægja á veiðinni í Borgarfirði enda göngur þar að mestu afstaðnar. Allar Borgafjarðarárnar eru með minni veiði en í síðustu viku, nema Hítará ef við flokkum hana með því svæði. Sumar reyndar halda nánast sínu en aðrar gefa verulega eftir. Auðvitað geta spilað hér inn í staðbundnar aðstæður en þróunin er öll á sama veg.

Rangárnar eru komnar inn í besta tíma sumars og gáfu báðar rétt rúmlega fjögur hundruð laxa veiði í síðustu viku. Eystri er að verða komin á par við það sem var í fyrra en Ytri er að gera mun betur það sem af er sumri.

Samfélagsmiðlastjarnan Marina Gibson gerði góða ferð í Eystri - Rangá. …
Samfélagsmiðlastjarnan Marina Gibson gerði góða ferð í Eystri - Rangá. Veiðin þar fór yfir fjögur hundruð laxa í síðustu viku. Ljósmynd/RS

Vopnafjörðurinn sker sig nokkuð úr og jafnvel má segja að NA–landið geri það í heild sinni. Selá og Hofsá eru að gefa mun meiri veiði en í fyrra. Sandá hefur farið betur af stað og þá er Jökla á ágætu róli. Miðfjarðará í Bakkafirði er að fara mikið fram úr veiði á sama tíma og í fyrra og sömu sögu er að segja af Svalbarðsá og Hafralónsá sem eru báðar búnar að gefa mun betri veiði en í fyrra.

Einstaka ár eru svo ýmist vonbrigði eða gleðiefni. Miðfjarðará er töluvert undir því sem hún hafði gefið í fyrra. Enn getur ræst úr en þetta er staðan í lok júlí. Flókadalsá sem oft hefur verið nefnd hér í þessum vikuyfirlitum frá Landssambandi veiðifélaga er komin yfir þrjú hundruð laxa á sínar þrjár stangir. Lokatala þar í fyrra var 281 lax.

Hér má sjá topplistann eftir síðustu viku. Fyrsta talan er heildarveiði miðað við lok veiðidags í gærkvöldi. Síðan kemur tala innan sviga og er það veiðin á sama tíma í fyrra. Næst kemur tala yfir vikuveiðina og loks innan sviga vikuveiðin í vikunni þar á undan.

1. Ytri – Rangá og Vesturb. Hólsár 1.182 (715) Vikuveiði 413 (382)

2. Þverá/Kjarrá 865 (736) Vikuveiði 129 (179) 

3. Eystri – Rangá 855 (864) Vikuveiði 405 (258)

4. Norðurá 801 (911) Vikuveiði 90 (191)

5. Urriðafoss 762 (787) Vikuveiði 61 (119)

6. Langá 525 (409) Vikuveiði 98 (145)

7. Haffjarðará 497 (483) Vikuveiði 93 (117)

8. Elliðaár 457 (318) Vikuveiði 91 (74)

9. Miðfjarðará 452 (634) Vikuveiði 119 (122)

10. Grímsá 403 (284) Vikuveiði 94 (93)

11. Selá 397 (330) Vikuveiði 171 (106)

12. Laxá í Kjós 396 (412) Vikuveiði 61 (96)

13. Laxá í Leirársveit 390 (408) Vikuveiði 54 (99)

14. Laxá á Ásum 375 (315) Vikuveiði 99 (124)

15. Hofsá 364 (221) Vikuveiði 144 (122)

16. Jökla 360 (225) Vikuveiði 125 (134)

17. Stóra – Laxá 340 (242) Vikuveiði 58 (57)

18. Hítará 315 (250) Vikuveiði 81 (53)

19. Flókadalsá 305 (134) Vikuveiði 40 (45) *Lokatölur í fyrra 281

Blanda fór yfir þrjú hundruð laxa töluna eftir vikuveiði upp á hundrað laxa. Það er nákvæmlega sama veiði og hún hafði gefið á þessum tíma í fyrra. 302 laxa. Sama er að segja með Laxá í Aðaldal. Hún er á pari við í fyrra með 192 laxa. Víðidalsá er einnig á pari miðað við í fyrra. Hafði í gærkvöldi gefið 262 laxa á móti 259 í fyrra. Laxá í Dölum er að byrja mun betur en í fyrra. Er nú komin í 151 lax á móti 82 í fyrra. 

Tölur eru fengnar frá angling.is en útreikningar eru Sporðakasta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert