„Komnir í skurð fimm – náðum nítján“

Grágæsastofninn hefur minnkað töluvert og hvetur Umhverfisstofnun veiðimenn til að …
Grágæsastofninn hefur minnkað töluvert og hvetur Umhverfisstofnun veiðimenn til að gæta hófs við veiðar. Veiðitímabilið hófst í dag. Einar Haraldsson

Veiðitímabil á grágæs og heiðagæs hófst í dag 20. ágúst. Fyrstu skytturnar tóku daginn snemma, hvort sem var inni á hálendi í leit að heiðagæs eða í fyrirsát fyrir grágæs á láglendi. Umhverfisstofnun hefur beint þeim tilmælum til veiðimanna að gæta hófs við grágæsaveiðar þar sem stofninn hefur minnkað undanfarin ár. Heiðagæsastofninn er hins vegar mjög sterkur og hefur verið á mikilli uppleið. Grágæsastofninn náði hámarki árið 2011 þegar stofnstærð var talin vera 112 þúsund fuglar. Nú er stofnstærðin metin rétt tæplega sextíu þúsund gæsir. Ekki liggja fyrir skýringar á þessari fækkun.

Öðru máli gegnir með heiðagæsina en þar er stofninn í hæstu hæðum. Sporðaköst náðu tali af Reyni Sigmundssyni veiðimanni en hann reif sig upp snemma í morgun ásamt tveimur félögum sínum og héldu þeir til veiða. „Við vorum komnir í skurð klukkan fimm og náðum nítján fuglum,“ sagði Reynir í samtali við Sporðaköst. „Við vorum ekkert að flýta okkur. Þegar við mættum voru komnir tveir hópar í túnið og við hefðum verið mættir fyrr ef við hefðum ætlað að taka þetta með trompi en við vorum slakir. Við þurftum að bíða töluvert eftir fyrstu fuglunum en svo fóru hóparnir að koma. Þær flugu lágt enda hvasst og við vorum að fá þær í frábær færi.“

Setið fyrir heiðagæs við tjarnir þar sem hún kemur inn …
Setið fyrir heiðagæs við tjarnir þar sem hún kemur inn til lendingar. Morgunblaðið/Ingó

Þeir félagar skutu nítján grágæsir þegar upp var staðið og sagði Reynir að fuglinn hefði verið í fínu standi. „Hún verpti svo snemma á Vesturlandi og við vorum farnir að sjá unga í maí. Það voru engir aumingjar í þessu sem við vorum að skjóta. Voru allt fuglar sem voru í góðum holdum og vel þroskaðir ungar.“

Skotveiðifélag Íslands, SKOTVÍS hefur tekið saman svör við ýmsum spurningum veiðimanna og þá ekki síst sem snúa að fuglaflensu og meðhöndlun á bráð. Nálgast má þessa samantekt á heimasíðu SKOTVÍS eða á síðu félagsins á facebook. Hér að neðan birtum við hluta af þessari samantekt.

„Við veiðar í haust er því rétt að hafa varann á sér. Á vef MAST, er birt yfirlit yfir staðfest smit á landinu í kortasjá. Þar má sjá að flest smitin sem staðfest hafa verið jákvæð, eru á Reykjanesi, nokkur á Snæfellsnesi og svo hafa greinst smit í Eyjafirði og við Skjálfandaflóa. Á Suð-austurlandi hafa einnig greinst nokkur jákvæð smit, en ekkert á svæðinu frá Höfn og norður að Skjálfandaflóa.

Jarle Reiersen, héraðsdýralæknir Suðausturumdæmis hjá Matvælastofnun segir að talsvert hafi fundist af dauðum villtum fuglum, sem sýkst hafi af veirunni. Til dæmis hafi áhrifin á Skúminn verði talsverð og kríur hafi líka sýkst. Ekki hafi fundist mikið af dauðum gæsum, en eitthvað af Helsingja.

Hann tekur fram að veiran fjölgi sér ekki eftir dauða hýsils. Það er, veira fjölgar sér ekki í dauðum fuglum.

Matvælastofnun beinir því til þeirra sem veiða villta fugla að láta vita, ef grunur leikur á að smitaður fugl hafi veiðst. Einkennin lýsa sér meðal annars í úfnum fiðurham, hósta eða hnerra, blæðingum í húð og niðurgangi.

Endur og gæsir smitast sjaldnar og ef um smit er að ræða geta einkennin verið mjög væg.

En tilmæli MAST til þeirra sem halda til veiða eru að gæta ávallt smitvarna við meðhöndlun á fugli sem grunur leikur á að sé smitaður, og tilkynna til Matvælastofnunar. Stofnuninni er ekki kleift að taka sýni úr öllum tilkynntum fuglum, en það verður metið hverju sinni.

Gætið sóttvarna við meðhöndlun og verkun á fuglunum. Notið til dæmis hanska og grímu. Mikilvægt er að sótthreinsa vel verkfæri og vinnuumhverfi að lokinni verkun.

Gætið fyllsta hreinlætis við eldun, varist krosssmit og að kjötið sé nægjanlega eldað.

Hér er rétt að taka frama að engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglaflensu við neyslu afurða af fuglum.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka