Stærsti lax sumarsins, til þessa í Ytri – Rangá veiddist í morgun. Þar var að verki færeyskur veiðimaður, Adrian Stauss sem naut leiðsagnar Dags Árna Guðmundssonar. Stórlaxinn tók spún í Stallmýrarfljóti sem er á svæði sjö í Ytri og er skammt neðan við Árbæjarfoss.
Bæði Stefán Sigurðsson leigutaki og Dagur Árni leiðsögumaður staðfestu að laxinn hefur sést nokkrum sinnum í sumar. Þannig sagði Dagur Árni að hann hefði séð hann fyrir um tveimur vikum. „Ég giskaði á að þetta væri fiskur á bilinu 103 til 105 sentímetrar. Svo kastaði Adrian á í hann í morgun af hinum bakkanum og tók spúninn hjá honum. Þetta var svakaleg viðureign sem stóð í rétt um klukkutíma. Ég fór nánast hálfur á kaf þegar ég háfaði hann en þetta hafði allt,“ sagði Dagur Árni í samtali við Sporðaköst og var hinn kátasti með þessa niðurstöðu.
Hængurinn mældist 103 sentímetrar staðfesti Dagur Árni en hann mældi fiskinn í vitna viðurvist. Spúnninn sem hann tók heitir Sille kongen bronz. Mynd fylgir með af spúninum þannig að þeir sem eiga leið til Færeyja geta fjárfest í svona grip ef hann er ekki til í íslenskum veiðibúðum.
Þetta er þriðji hundraðkallinn sem Suðurlandið gefur í sumar. Sá fyrsti veiddist í Stóru –Laxá og síðar annar í Hvítá við Iðu. Allir fengu þeir líf og sagði Dagur Árni að þessum stóra höfðingja hefði verið sleppt eftir eftirminnilega viðureign.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |