Ævintýralegur stórlaxadagur í Víðidalsá

Rögnvaldur með stærsta laxinn sem veiðst hefur í Víðidalsá það …
Rögnvaldur með stærsta laxinn sem veiðst hefur í Víðidalsá það sem af er þessu tímabili. Mældist 101 sentímetri og hundraðkall númer 34 sem Rögnvaldur landar úr Víðidalsá. Ljósmynd/ES

Þegar veiðimenn í Víðidalsá hófu veiðar í gærmorgun var stærsti laxinn úr ánni 96 sentímetra lax. Raunar tveir slíkir, en mjög óvanalegt er þegar komið er fram í september að ekki hafi veiðst í það minnsta einn hundraðkall.

Segja má að ævintýrið hafi hafist þegar Alexander Arnarson landaði 98 sentímetra hæng úr Faxabakka fyrir hádegi. Var það stærsti lax árinnar þegar honum var landað. Eftir hádegi setti Rögnvaldur Guðmundsson í mjög stóran fisk, einmitt í Faxabakka og var ekki lengi að þreyta hann. Fiskurinn mældist 98 sentímetrar. Strax vöknuðu grunsemdir um að þetta væri sami fiskurinn og veiðst hafði fyrir hádegi. Þegar myndir voru svo bornar saman að kvöldi var staðfest að um sama fisk er að ræða. Fyrir hádegi tók hann rauðan Frances kón en eftir hádegi féll hann fyrir Evening dress númer 14.

Hængurinn stóri kominn í klakkistu. Fiskarnir sem eru þar fyrir …
Hængurinn stóri kominn í klakkistu. Fiskarnir sem eru þar fyrir virka ekki stórir þegar tröllið er komið til þeirra. Ljósmynd/ES

Þegar komið var fram á kvöld var Rögnvaldur staddur í Harðeyrarstreng en þar liggja jafnan stórir laxar. „Ég var með Ernu númer sextán og er hún búin að gefa mér vel í sumar. Ég var með hana á mígandi strippi og þá kom hann og negldi hana. Ég tók mjög fast á honum og hef sennilega ekki verið nema tuttugu mínútur að landa honum,“ sagði Rögnvaldur í samtali við Sporðaköst. Fiskurinn var vandlega mældur og var nákvæmlega 101 sentímetri. Ritstjóri Sporðakasta tók þátt í mælingunni og getur staðfest að hún er rétt. Á því augnabliki þegar Egill Guðjohnsen sporðtók laxinn slitnaði úr fiskinum en það kom ekki að sök.

Tvíveiddi hængurinn úr Faxabakka. Tók rauða Frances fyrir hádegi og …
Tvíveiddi hængurinn úr Faxabakka. Tók rauða Frances fyrir hádegi og litla Evening dress eftir hádegi. Ljósmynd/ES

Þessi magnaði hængur var settur í kistu og mun verða nýttur þegar hrognagröftur í hliðarár verður í haust. 

Það er rétt að geta þess að þessi lax er 34 hundraðkallinn sem Rögnvaldur landar í Víðidalsá og er afar ólíklegt að nokkur veiðimaður hafi landað jafn mörgum stórlöxum úr einni og sömu ánni. Nokkuð er um liðið síðan að Rögnvaldur landaði síðast slíkum fiski og eru heil þrjú ár síðan.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert