Maríulaxinn veiddist aftur mánuði síðar

Rúnar með maríulaxinn í Klapparnefi. Þetta er ekki hans maríulax, …
Rúnar með maríulaxinn í Klapparnefi. Þetta er ekki hans maríulax, því hann veiddi sinn árið 1986 í Soginu. Þessi smálax veiddist fyrst 19. ágúst og var þá maríulax. Ljósmynd/GAÁ

Rúnar Haraldsson lenti í sérstakri uppákomu í Stóru – Laxá í hollinu sem nú er að veiða. Hann setti í smálax og landaði og honum í Klapparnefi sem er uppi á svæði fjögur í Stóru, eða á efra svæðinu eins og það heitir í dag. „Þetta var svolítið fyndið. Þorsteinn Stefánsson leiðsögumaður háfaði fiskinn og leit svo á mig og Guðmund Atla félaga minn og sagði. Vitiði hvað? Þetta er maríulax. Ég svaraði honum að það gæti ekki verið. Ég hefði fengið minn maríulax 1986 og hann var rúm tuttugu pund. Nei. Þetta er maríulax, sagði Þorsteinn. Svo litum við ofan í háfinn og þá var búið að bíta af honum veiðiuggann,“ sagði Rúnar í samtali við Sporðaköst.

Það leyndi sér ekki að þessi lax hafði áður komist undir manna hendur. Veiðiugginn var bitinn af þannig að greina mátti tannaför. Þorsteinn leiðsögumaður rifjaði upp að hann hefði verið að veiða með Magnúsi vini sínum í Klapparnefni fyrir rétt rúmum mánuði. „Hann fékk maríulaxinn sinn hérna og beit af honum veiðiuggann og sleppti honum svo aftur. Ætli þetta sé ekki bara hann.“

Veiðiugginn bitinn af og fiskinum sleppt að því loknu. Þorsteinn …
Veiðiugginn bitinn af og fiskinum sleppt að því loknu. Þorsteinn Stefánsson leiðsögumaður í Stóru - Laxa staðfestir að þetta er sami laxinn og veiddist rúmum mánuði fyrr. Ljósmynd/GAÁ

Þorsteinn Stefánsson staðfesti svo að um sama laxinn sé að ræða. Hann bar saman myndir af honum sem teknar voru við bæði tækifæri og það leynir sér ekki að þetta er sami laxinn. Sem maríulax tók hann Sunray Shadow en hjá Rúnari var það Collie Dog fluga sem hann féll fyrir.

Það er alþekktur siður meðal veiðimanna að bíta veiðiuggann af fyrsta laxi sem þeir veiða og kallast hann maríulax. Er þetta gert til að tryggja sér veiðihylli til framtíðar.

Ekki eru til neinar ákveðnar heimildir um hvernig orðið maríulax, og nútíma siðir urðu til í kringum það. Hins vegar segir á Vísindavefnum að rekja megi þann sið til sjómanna að gefa fyrsta fiskinn sem sjómaður veiddi til fátækustu eða elstu konunnar í verstöð.

Magnús Vatnar með maríulaxinn sinn sem hann veiddi í Klapparnefi …
Magnús Vatnar með maríulaxinn sinn sem hann veiddi í Klapparnefi 19. ágúst. Þorsteinn leiðsögumaður háfaði laxinn í bæði skiptin. Ljósmynd/ÞS

Maríufiskur var eins konar heitfiskur í kaþólskri trú. Heitið var á Maríu mey til fiskiheilla og var henni gefin fyrsti fiskur sem veiðimaður veiddi. Vísindavefurinn svarar ekki þeirri spurningu hvernig þessi siður færðist yfir á laxveiðar, en í dag þekkja allir veiðimenn heitið maríulax og stunda þann sið að bíta veiðiuggann af til að tryggja sér veiðihylli.

Veiðiugginn bitinn af. Svo fékk hann líf og var hinn …
Veiðiugginn bitinn af. Svo fékk hann líf og var hinn sprækasti þegar Rúnar veiddi hann aftur. Ljósmynd/ÞS

Rúnar er eini veiðimaðurinn sem Sporðaköst hafa heyrt um að hafi veitt maríulax tvisvar og það á sitt hvorri öldinni. Báðir þessir maríulaxar hafa ratað í fjölmiðla því sá fyrri og eiginlegi maríulax Rúnars varð tilefni til umfjöllunar í DV þar sem tíu ára strákur hafði veitt svo stóran maríulax. Þetta var í Alviðru í Soginu og sá stóri tók svartan Toby.

„Það var bara töluvert verkefni fyrir tíu ára gutta að fást við þann veiðiugga. Þetta var heil máltíð,“ sagði Rúnar og hló.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert