Fóru 15 í „sturlaða“ ferð til Grænlands

Barmarnir á Grænlandi, frá vinstri: Margrét Lísa Steingrímsdóttir, Halla Fróðadóttir, …
Barmarnir á Grænlandi, frá vinstri: Margrét Lísa Steingrímsdóttir, Halla Fróðadóttir, Sandra Sif Morthens, Margrét Arnardóttir, Þórunn Auðunsdóttir, Sif Jóhannsdóttir, Alma Anna Oddsdóttir, Dögg Hjaltalín, Sylvía Kristín Ólafsdóttir, Guðný Helga Herbertsdóttir, Ingveldur Ásta Björnsdóttir, Erla Tryggvadóttir, Kristín Klara Grétarsdóttir, Sóley Kristjánsdóttir og liggjandi er Anna Lea Friðriksdóttir Ljósmynd/Barmarnir

Fimmtán íslenskar veiðikonur eru nýkomnar heim eftir veiðiferð til Grænlands þar sem þær veiddu bleikju í fjóra daga. Hópurinn hefur veitt saman í mörg ár og kallar sig Barmana. Meðal veiðisvæða sem þær hafa veitt má nefna Langá, Laxá í Kjós og Stóru-Laxá svo einhverjar ár séu tilgreindar.

Dögg Hjaltalín er ein af þeim sem fóru til Grænlands og hún segir ferðina hafa verið ótrúlega. En hvernig kom það til að hópurinn valdi Grænland og það síðari hluta september?

Dögg Hjaltalín með fallega bleikju sem er komin í haustlitina.
Dögg Hjaltalín með fallega bleikju sem er komin í haustlitina. Ljósmynd/Barmarnir


„Ég var búin að heyra Árna Baldursson dásama þessa veiði í Grænlandi. Mál æxluðust þannig að við fórum til hans á sölufund og náttúrlega seldi hann okkur þetta á staðnum, sem sól og blíðu og hörkuveiði,“ sagði Dögg í samtali við Sporðaköst.

Og hvernig var þetta svo á skalanum einn til tíu?

Hún hugsar sig ekki um. „Fimmtán. Þetta var algjörlega sturluð upplifun og engu líkt,“ hlær hún. Þær flugu fimmtán frá Reykjavík til Narsarsuaq á Grænlandi en nauðsynlegur aukafarangur var kominn á undan þeim, samtals 120 kíló. „Við vorum búnar að vinna heimavinnuna og vissum hvað við þurftum að taka með okkur.“

Grænlandsjökull í baksýn. Hópurinn nýtti tímann vel og á hverjum …
Grænlandsjökull í baksýn. Hópurinn nýtti tímann vel og á hverjum degi voru líka skoðunarferðir. Ljósmynd/Barmarnir

 Og hvað var þetta?

„Veitingar og hátalarar. Við vissum að það var lítið til á veiðislóðum, t.d. ekki tónik, og við þurftum því að koma með allt með okkur.“

Veiðin þarna er bleikja og segir Dögg að víða hafi verið mikið óhemjumikið magn af fiski. „Það kom okkur alveg á óvart hvað bleikjan var sterk og gaman að spila hana en við vorum bæði að veiða fiska sem voru legnir og svo nýrri bleikjur í bland. Við veiddum aðallega á púpur og straumflugur en prófuðum alls kyns leynivopn úr boxunum okkar. Við þurftum alveg að hafa fyrir bleikjunum á köflum en sums staðar var alveg pakkað af henni og þá gekk allt upp. Við vorum að fá fiska allt upp í sextíu sentímetra, sem eru fantableikjur.“

Margrét Lísa Steingrímsdóttir með stærstu bleikjuna í ferðinni. Þessi mældist …
Margrét Lísa Steingrímsdóttir með stærstu bleikjuna í ferðinni. Þessi mældist sextíu sentímetrar. Ljósmynd/Barmarnir

Frá Narsarsuaq var siglt í þrjá klukkutíma í veiðibúðirnar sem eru, að hennar sögn, æðislegur staður og ekki skemmdi fyrir að þær komu þangað í sól og blíðu. Strax var farið út að veiða í vatni sem er stutt frá veiðihúsunum. Ekki nema fimm mínútna sigling. Annars var töluvert lengri sigling á aðra veiðistaði. „Við vorum reyndar það heppnar að upplifa að fara eitthvað á hverjum degi samhliða veiðinni. Við fórum og skoðuðum ólíka staði enda allar komnar í bátana snemma á morgnana og magnið af fiski þannig að það þarf ekki alveg tólf tíma veiðidaga.

Prinsinn af Quassimiut. Eina barnið í þorpinu. Hann naut þess …
Prinsinn af Quassimiut. Eina barnið í þorpinu. Hann naut þess að vera með hópnum í þeirra ævintýrum. Ljósmynd/Barmarnir


Einn daginn var sjálfur Grænlandsjökull heimsóttur sem skríður fram í sjó þar sem hafernir sveimuðu um. Það var algjörlega stórfenglegt sjónarspil. Annan daginn heimsóttum við Quassimiut, heimaþorp gædanna okkar þar sem nú búa ellefu manns og þar af eitt barn en í þorpinu var fiskverkun og ein verslun sem meðal annars veiðihúsið kaupir frá. Það var svolítið spes að sjá saman í einni búð bæði páska- og jólanammi. Snakk og bjór var hápunkturinn.“

Einn af leiðsögumönnunum gerir að nýskotnu hreindýri. Dögg segir að …
Einn af leiðsögumönnunum gerir að nýskotnu hreindýri. Dögg segir að maturinn hafi verið góður. Allur nýveiddur í nágrenninu. Bleikja, lax, hreindýr og þorskur. Ljósmynd/Barmarnir


Maturinn í veiðihúsinu var mjög góður enda Grænland mikil matarkista. Boðið var upp á bleikju, þorsk og hreindýr, allt nýveitt úr nágrenninu. Einnig er algengt að boðið sé upp á lax sem er veiddur í net í sjónum en laxinn kemur ekki upp í árnar á Grænlandi. „Aðstaðan í veiðikofunum okkar var eins og best gerist á Íslandi svona kannski fyrir utan síma- og netsambandsleysi og rafmagnsleysi á nóttunni. Það var ekki mikið vandamál enda yljuðum við okkur við varðeldinn, með miklum hlátri og söng. Við dýfðum okkur líka til sunds í Grænlandshafinu og gátum hitað okkur í góðu gufubaði eftir á.“

Þær voru duglegar við að flaka og tóku fullt af …
Þær voru duglegar við að flaka og tóku fullt af flökum með sér heim. Ljósmynd/Barmarnir


Þetta er í fyrsta skipti sem Dögg kemur til Grænlands. „Ég hef aldrei upplifað svona menningarsjokk áður. Mamma spurði mig hvort þarna væri mikil fátækt. Það orð er ekki nógu sterkt til að lýsa því sem við sáum í þeim bæjum sem við heimsóttum. Ítrekað rafmagnsleysi, takmarkað ferskvatn og óboðleg fráveitukerfi eru ekki alveg aðstæður sem hægt er að ímynda sér að búa við yfir vetrarmánuðina hér á norðurhjara veraldar. Einn leiðsögumaðurinn okkar, sem er frá Quassimiut, var með son sinn með okkur í tvo daga. Hann er eina barnið í þorpinu og það er tveggja tíma sigling í bæinn þar sem hann fer í skóla. Ég hugsa að hann fari ekki oft í viku í skólann.“

Dögg með eina af mörgum bleikjum. Sól og blíða á …
Dögg með eina af mörgum bleikjum. Sól og blíða á þessari mynd en þær fengu ýmsar útgáfur af veðri. Ljósmynd/Barmarnir

Þetta er einhver magnaðasta ferðin sem Barmarnir hafa staðið fyrir frá upphafi. Þær langaði í eitthvað nýtt og öðruvísi og ferðin var einmitt þannig. Það verður spennandi að vita hvaða á verður fyrir valinu næst hjá þessum magnaða veiðihópi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert