Stærstu sjóbirtingarnir í haust

Pierre Affre með risa birtinginn sem hann landaði í Tungufljóti. …
Pierre Affre með risa birtinginn sem hann landaði í Tungufljóti. Fiskurinn mældist 101 sentímetri og er sá stærsti sem Sporðaköst hafa upplýsingar um á þessu ári. Það getur verið erfitt að halda á svo löngum fiski fyrir myndatöku. Ljósmynd/Fish Partner

Stóru sjóbirtingarnir hafa svo sannarlega mætt í árnar fyrir austan nú í haust. Við veltum upp þeirri spurningu í síðasta mánuði hvort þetta yrði haust stóru sjóbirtinganna. Þegar veiðibækur fyrir Tungufljót, Tungulæk og Eldvatn í Meðallandi eru skoðaðar er óhætt að svara þeirri spurningu játandi. 

Franskir veiðimenn voru í Tungufljóti um mánaðamótin gerðu góða veiði og það sem meira er stærðin á birtingunum var eins og best gerist. Stærsta fiskinn í hollinu veiddi Pierre Affre. Það var birtingur sem mældist 101 sentímeter að sögn Kristjáns Páls Rafnssonar hjá Fish Partner sem er með svæðið á leigu. Þetta er stærsti sjóbirtingur sem Sporðaköst hafa heyrt af á þessu ári. Einungis örfáir sjóbirtingar veiðast í þessum stærðarflokki. Þó nokkur fjöldi af fiskum á bilinu 90 til 96 sentímetrar hafa veiðst í haust en það er afar sjaldgæft að fá sjóbirting sem nær hundrað sentímetrum.

Franska hollið í Tungufljóti landað nokkrum yfir níutíu sentímetrum og virðast þeir hafa hitt frábærlega á aðstæður.

Maros Zatko með 97 sentímetra fisk úr Tungufljóti sem hann …
Maros Zatko með 97 sentímetra fisk úr Tungufljóti sem hann veiddi í ágúst. Ljósmynd/MZ

Sveiflur eru oft ótrúlega miklar í sjóbirtingsveiði. Gott dæmi um það er Tungulækur um mánaðamótin. 27. og 28. september veiddist einn fiskur báða dagana. Þann 29. er enginn fiskur bókaður. 30. september veiddust svo 28 sjóbirtingar og mældist sá stærsti níutíu sentímetrar. Daginn eftir veiddust 24. Þessir tveir dagar gáfu samtals 52 birtinga sem er nánast tíu prósent af sjóbirtingsveiði ársins í læknum. En þetta er einmitt happdrættið sem þekkt er í birtingnum. Það er oft allt eða ekkert.

Mikið er af smærri fiski í þessum ám og er það góðs viti upp á framhaldið en þekkt er að sjóbirtingurinn gengur oft í árnar sínar og eru til staðfest dæmi um birtinga sem hafa hrygnt margsinnis. Nú er veiða og sleppa fyrirkomulagið nánast orðið alls ráðandi í sjóbirtingsánum fyrir austan og það er ástæðan fyrir fjölgun á þessum allra stærstu birtingum.

Þessi veiddist í Vatnamótunum og fékk líf. 93 sentímetrar. Hann …
Þessi veiddist í Vatnamótunum og fékk líf. 93 sentímetrar. Hann er hér að jafna sig áður en förinni er haldið áfram á hrygningastöðvarnar. Ljósmynd/MZ

Stærstu birtingarnir í haust sem Sporðaköst hafa upplýsingar um er 101 sentímetra fiskurinn hans Pierre í Tungufljótinu. 97 sentímetra fiskur veiddist í Tungufljóti 11. ágúst og hann fékk Maros Zatko. Sá stærsti úr Eldvatni til þessa veiddist í Eyjarofi fyrir viku síðan og mældist hann 96 sentímetrar. Veiðistaðurinn Villi gaf 94 sentímetra fisk 26. ágúst og 93 sentímetra fiskur náðist í Eyjarofi 24. september. Tveir 93 sentímetra birtingar hafa veiðst í haust í Tungulæk.

Þessi upptalning svarar játandi spurningunni um hvort þetta yrði haust hinna stóru sjóbirtinga. Enn lifa tvær vikur af sjóbirtingstímanum og ekki útilokað að fleiri sleggjur í þessum stærðarflokki eigi eftir að gleðja veiðimenn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert